145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

þjóðgarður á miðhálendinu.

[15:08]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hvers vegna setur maður nefnd á laggirnar? Maður setur nefnd á laggirnar til að fá betri upplýsingar, verða færari um að taka faglega ákvörðun eða betri ákvarðanir. Þess vegna er það viðhorf mitt að það hafi verið nauðsynlegt að fá fleiri sjónarmið inn. Þó að þessi tillaga hafi verið flutt á Alþingi var ég ekki tilbúin að segja já eða nei við henni fyrr en ég fengi fyllri upplýsingar. Þetta er stórt stjórnsýslulegt atriði og ég vildi fá að skoða það betur. Ráðuneytisstjórinn stýrir þessari vinnu og vitaskuld verður haft samráð við ýmsa aðila. Ég hef ekki skipað fyrir nákvæmlega við hverja verður rætt en ég mun koma áleiðis þeim sterka vilja sem ég skynja hér, að kallaðir verði til aðilar frá Alþingi, en áður en við getum samþykkt málið hér á Alþingi tel ég algjörlega nauðsynlegt að fá þessa greiningu bæði hvað stjórnsýslu varðar og frá ýmsum öðrum hagsmunaaðilum. Það er mitt svar. (KJak: … vinna málið.)