145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

bónusar til starfsmanna Kaupþings.

[15:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Öllum blöskra okkur bónusarnir í Kaupþingi sem teknir verða til afgreiðslu nú í vikunni. Ég fagna sérstaklega yfirlýsingum Bjarna Benediktssonar um afstöðu hans til þess, en hlýt að spyrja: Ætlar fjármála- og efnahagsráðherra að gera eitthvað í málunum?

Þegar kemur að bónusum í fjármálakerfinu og fyrirtækjum tengdum þeim þá hlýtur brennt barn að forðast eldinn. Við höfum á þessu kjörtímabili rætt í þinginu frumvarp um bankabónusa þar sem okkur þótti ráðherra ætla að ganga fulllangt en náðist þó góður samhljómur um að takmarka verulega. En það er ekki nóg að við náum samhljómi í því ef aðilar fara einfaldlega sínu fram. BSRB, samtök ríkisstarfsmanna, hafa um helgina skorað á stjórnvöld að grípa inn í og þess vegna inni ég fjármálaráðherra eftir því hvort hann hafi hugsað sér að beita valdi sínu hér til þess að flytja stjórnarfrumvarp sem að málinu lýtur, hvort hann hafi kallað fyrir sig fyrirsvarsmenn þessara aðila, hvort ríkið eigi einhverja fulltrúa á þeim fundi sem taka afstöðu til tillagnanna, sem hafi fengið einhver tilmæli frá ráðherranum, eða hvort hann með einhverjum hætti ætli að hlutast til um það að þetta gerist ekki, að við stöndum ekki hjá og horfum upp á þetta gerast, hvaða ráð fjármála- og efnahagsráðherra sjái til þess að taka á málinu sem við öll, þvert á flokka, erum svo augljóslega og skiljanlega ósátt við.