145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

bónusar til starfsmanna Kaupþings.

[15:13]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég var ekki að tala almennt um framtíðina og einhverjar nefndir. Ég var að spyrja: Ætlar fjármálaráðherra að gera eitthvað í þessu máli, bónusgreiðslunum í Kaupþing? Sér hann fyrir sér að gera eins og Bretar gerðu, að beita skattlagningarvaldi til þess að taka á slíkum ofurgreiðslum? Þetta er ekki bara eins og öll önnur fyrirtæki í landinu og óskyld fjármálastarfsemi. Þetta er aðili sem á einn af lykilviðskiptabönkunum í landinu og er þess vegna nátengdur fjármálastarfseminni í landinu og drottnandi stöðu bankanna hér á markaði. Fyrirtækið hefur fullkomna sérstöðu þó að slitabú sé. Ég spyr: Ætlar ráðherrann að grípa til einhverra ráðstafana til þess að koma í veg fyrir að þetta gerist, þótt ekki væri annað en kalla forsvarsmennina fyrir sig, mælast til þess að þetta verði ekki gert, eða með einhverjum hætti beita sér til þess að þetta gerist ekki? Eða ætlum við að vera einhverjir aðilar úti í bæ sem mótmæla en láta svo hlutina ganga fram?