145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

mengandi örplast í hafi.

[15:21]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög mikilvægt að það verði rannsakað nánar hvort það sé raunverulega þannig að skolphreinsistöðvar okkar síi ekki þessar plastagnir betur en fram kemur í þessari grein. Mér finnst líka mikilvægt annað mál sem snýr að örplasti eða pínulitlum plastkúlum sem eru í snyrtivörum. Framleiðendur hafa, ég ætla nú ekki að segja að eigin frumkvæði af því það hefur auðvitað verið pressa frá neytendum og umhverfisverndarsamtökum, farið að hætta að nota þessar öragnir í skrúbba og jafnvel tannkrem og annað slíkt. Mér finnst það alveg koma til greina að það verði bannað að selja vörur sem innihalda algjörlega ónauðsynlegar agnir af þessu tagi því að það er hægt að nota svo margt annað í staðinn, salt og fleira.

Í dag er það þannig að ef neytendur vilja forðast þetta þá þurfa þeir að lesa eða finna á pakkningunni að það standi að ekki séu notaðar plastagnir, menn eru farnir að auglýsa það. Við á Íslandi breytum kannski ekki heiminum en mér finnst að við gætum verið í fararbroddi á svo mörgum sviðum og mundum vekja athygli ef við tækjum skref eins og það að banna t.d. bara snyrtivörur sem innihalda svona plastagnir. Þetta er algjör óþarfi og slæmt fyrir umhverfið.