145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

staðsetning Lögregluskólans.

[15:29]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það væri auðvitað umhugsunaratriði ef við tækjum allt nám sem er í boði í háskólastofnunum úti á landi, bærum það síðan saman við það sem er t.d. í Háskóla Íslands og legðum mat á það hvort ætti að hafa námið yfir höfuð á fleiri stöðum en í Háskóla Íslands. Fyrir liggur stefna stjórnvalda, og ég held að það sé alveg þvert á flokka, að við viljum tryggja og styrkja stoðir við nám úti á landi. Þarna var einstakt tækifæri þar sem um var að ræða nýtt nám á háskólastigi að setja það í skólastofnun, menntastofnun, sem væri úti á landi, Háskólann á Akureyri, að því gefnu og það er lykilatriði, að viðkomandi skóli stæðist að fullu þær kröfur sem gerðar eru um akademíska getu.

Hvað varðar muninn bendi ég á að þessar upplýsingar eru auðvitað opinberar. Nokkrir mælikvarðar voru lagðir þar til grundvallar. Mitt mat er það að munurinn á 116 stigum og 128 af 135 stigum sé það lítill að með engum hætti sé hægt að segja að það væri einhver goðgá að taka ákvörðun og senda skólann norður í land. Ég vil (Forseti hringir.) minna á að það er alltaf ákvörðun og á ábyrgð viðkomandi ráðherra, ráðherra getur aldrei (Forseti hringir.) skýlt sér á bak við nefndir, ráð eða einhvers konar svona matsferli. Ráðherrann þarf alltaf að taka þessa ákvörðun á eigin ábyrgð.