145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

stefna stjórnvalda í samgöngumálum.

[15:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það virðist fara fram hjá fólki í almennri umræðu um þessa ríkisfjármálaáætlun og stöðu opinberra fjármála að það eru allir orðnir sammála um það núna að það sé mikið svigrúm til að bæta alls staðar við. Það er dálítið annað en átti við fyrir örfáum árum þegar við vorum í niðurskurðarhamnum. (Gripið fram í.) Þegar við þurftum beinlínis að lækka laun þingmanna og annarra forstöðumanna í samfélaginu. (Gripið fram í.) — Er ég í tvíhliða samtali við hv. þingmann?

(Forseti (EKG): Hæstv. ráðherra hefur orðið.)

Það átti annað við fyrir örfáum árum þegar við vorum að skera niður. Nú koma þingmenn hingað upp, benda á þetta skjal og segja: Það er svigrúm til að bæta við á öllum sviðum, í síðustu viku var rætt um heilbrigðismál, hv. þingmaður talar um samgöngumál. Ég vek athygli á því að í þessu skjali er landsframleiðslan að vaxa og fjárfestingarstig ríkisins helst framan af óbreytt sem hlutfall af landsframleiðslu, sem þýðir stóraukin útgjöld í opinberar framkvæmdir og á síðari hluta tímabilsins erum við að fara úr 1,3% í 1,5%. En það er auðvitað áskorun fyrir eitt samfélag að ætla sér að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús, stórhækka laun í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og annars staðar hjá opinberum starfsmönnum, greiða niður skuldir, skila afgangi, fara í uppbyggingu á menntasviðinu og viðhalda samgöngukerfinu. Þetta eru miklar áskoranir. Við verðum á endanum að sætta okkur við að við getum ekki gert allt í einu. Við verðum að sætta okkur við það. Þess vegna sakna ég þess að tekin væri dýpri umræða um þá stefnu sem þessi ríkisstjórn lagði upp með, að það reyndi fyrir alvöru á að menn tækjust á um það í þingsal hvort menn væru sammála stefnunni um það hvernig við vildum sjá skuldir þróast. Það sem er verið að gera hér er að skapa svigrúm fyrir 10% aukningu ríkisútgjalda á áætlunartímabilinu. Peningar sem áður fóru í að greiða vexti til lánardrottna ríkisins fara núna beint (Forseti hringir.) inn í samfélagið, í innviðauppbyggingu, til góðra mála. Þetta er uppbyggingarskjal.