145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

stefna stjórnvalda í samgöngumálum.

[15:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi ríkisstjórn tók 40 milljarða af fjármálafyrirtækjunum meðan ríkisstjórnin sem hv. þingmaður studdi tók 1 á ári, 1 milljarð á ári. Svo kom ný ríkisstjórn, þessi sem hér situr, hún tók 40 milljarða af fjármálafyrirtækjunum og lét slitabúin greiða sinn skatt. Á þessu ári tökum við í stöðugleikaframlag um 20% af landsframleiðslu, 20% af landsframleiðslu, og endurheimtum allt tapið sem ríkið varð fyrir á eftirhrunsárunum. Það er svona sem við réttum ríkissjóð við, það er svona sem við fáum alvöruviðspyrnu. Með því að greiða upp skuldir höfum við skapað 20, 30 milljarða svigrúm, sem áður fóru í vexti, til að setja í uppbyggingu. Á bls. 41 í þessari sömu áætlun kemur fram hvernig fjárfestingarhlutfallið fer hækkandi á áætlunartímanum. Og talandi um tekjustofna ríkisins, heildartekjur ríkisins fara úr 760 milljörðum í yfir 900 milljarða á áætlunartímabilinu. Það er því ekki tekjuhlið ríkisfjármálanna sem er vandamálið hér, það er ekki tekjuhliðin, það eru algjörlega óraunhæfar hugmyndir sumra (Forseti hringir.) í þessum sal og víðar í samfélaginu um það hversu hratt er hægt að auka útgjöldin, algjörlega óraunhæfar hugmyndir.