145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

fjármögnun samgöngukerfisins.

751. mál
[15:41]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég held einmitt að mjög gagnlegt sé fyrir okkur að ræða svolítið framtíðina þegar kemur að þessum málum. En ég verð að hafna þeirri fullyrðingu hv. þingmanns að hér sé af hálfu þessa ráðherra og ríkisstjórnarinnar rekin sveltistefna í ríkisfjármálum. Það er auðvitað fjarstæðukennt þegar við blasir að verið er að búa til svigrúm til að fara í auknar framkvæmdir. Ríkisfjármálaáætlunin ber það líka með sér að svigrúm eykst á komandi árum. Ég get bara sagt við hv. þingmann að það er alveg fjarstæðukennt ef hún heldur að ég muni ekki berjast meðan ég hef afl til við að fá aukna peninga í þessa hluti.

Eins og þingmaðurinn veit er þetta kannski ekki einhlítt svar þessari spurningu. Við erum með margslungið samgöngukerfi, flugvelli, hafnir og vegi, umferðar- og öryggismál. Það er því af mörgu að taka þegar við lítum á þetta. Margir koma að fjármögnuninni í samgöngukerfinu; ríki, sveitarfélög, einkaaðilar og notendur sjálfir. Almenn stefnumörkun um uppbyggingu samgöngukerfis og rekstur sem snýr að ríkinu og þar með fjármögnun er sett fram í samgönguáætlun sem lögð er fyrir þingið og við vitum að er núna til umræðu í nefnd. Ég mun eingöngu fjalla um þetta mál út frá fjármögnun framkvæmda í samgöngum sem eru á ábyrgð ríkisins eins og það er skilgreint að lögum.

Við erum með, eins og þingmaðurinn þekkir, hafnir sem eru að hluta til hjá sveitarfélögum. Svo erum við líka með opinber hlutafélög, eins og Isavia sem annast rekstur Keflavíkurflugvallar. Hann er að fullu fjármagnaður með gjöldum á notendur. Miðað er við að svo verði áfram þó svo að einstakir liðir í gjaldtökunni taki breytingum í átt að meira gagnsæi og betri tengingar verði við kostnað. Innanlandsflugið er hins vegar á ábyrgð ríkisins. Þar er í gildi þjónustusamningur við Isavia um rekstur, viðhald og uppbyggingu flugvalla landsins í samræmi við samgönguáætlun. Notendagjöld standa því undir þriðjungi rekstrarkostnaðar við flugvelli. Að öðru leyti er þetta fjármagnað úr ríkissjóði með þjónustusamningum.

Vegakerfið, framkvæmdir, viðhald og þjónusta, hefur til þessa verið fjármagnað með mörkuðum tekjustofni og eldsneyti skattað með svokölluðu sérstöku vörugjaldi. Undanfarin ár eins og við þekkjum hefur hlutfall eldsneytisskatta sem varið hefur verið til vegamála farið minnkandi. Það hefur verið svo um töluvert árabil. En á móti hafa að hluta komið framlög úr ríkissjóði. Með nýjum lögum um fjárreiður ríkisins eru markaðir tekjustofnar aflagðir og það boðar auðvitað nýja tíma í fjármögnun samgöngukerfisins. Við gildistöku laga um opinber fjármál, auk þróunar í átt að orkuskiptum í samgöngum sem fer nú fram í fjármálaráðuneytinu er verið að endurskoða þetta fyrirkomulag, gjaldtökumál í samgöngum. Ég vonast til að sjá þær tillögur núna á haustmánuðum. Við gætum jafnvel fjallað um þær að einhverju leyti í aðdraganda þeirra kosninga sem fram undan eru.

Á undanförnum árum hefur dregið verulega úr framlögum til samgöngumála þó svo að síðustu tvö ár hafi framlög lítillega hækkað. Svigrúm í ríkisfjármálum hefur aukist. Það er hins vegar ekki ótakmarkað og augljóst að þörf er á að forgangsraða. Áherslur í ríkisfjármálum eru á heilbrigðismál, menntamál og velferðarmál. Vandséð er að ríkissjóður geti við núverandi aðstæður lagt nægilegt fé af mörkum við uppbyggingu vegakerfisins á þann hátt sem við mundum helst vilja sjá og á þeim hraða sem við mundum helst vilja sjá við þá miklu umferð sem við nú þekkjum á þjóðvegakerfi landsins. Þess vegna tel ég að við þurfum að horfa til þess að athuga hvort fjölbreyttari leiðir séu færar til að ná því markmiði að betur gangi að komast á þann stað sem við teljum best.

Meðal þess sem kemur til greina að mínu áliti er að leita eftir samstarfi við lífeyrissjóði og aðra fjárfesta um einstaka framkvæmdir. Slíkt fyrirkomulag getur verið beggja hagur. Þjóðin fær ný og öruggari samgöngumannvirki og fjármagnseigendur, þ.e. lífeyrissjóðir, fá örugga langtímaávöxtun á sína fjármuni. Við þekkjum þetta ágætlega úr rekstri og uppbyggingu Hvalfjarðarganga og það hefur heppnast mjög vel þótt við höfum ekki gengið mikið lengra í þeim efnum. Við horfum mjög til Noregs og fylgjumst með því sem þar fer fram, þar sem slíkt samstarf hefur gengið alveg ljómandi vel. Ég held að við getum lært af öðrum þjóðum í þessu efni og ættum að skoða það nánar. Lengra er málið náttúrlega ekki komið að sinni.

Uppbygging og rekstur samgöngumannvirkja er gríðarlega mikilvægt og umfangsmikið verkefni sem varðar íbúa og atvinnulíf miklu. Mikilvægt er að við horfum til þess hvernig við getum skipulagt hlutina til framtíðar miðað við þær áskoranir sem nú blasa við okkur. Ekki er hægt að stilla því þannig upp að með þessu sé með einhverjum hætti verið að draga úr skyldum ríkisins og þeim miklu skyldum sem á ríkinu hvíla, heldur miklu frekar að segja sem svo: Það verkefni sem blasir við okkur núna er mjög stórt í sniðum og hefur farið vaxandi og skynsemi er fólgin í því að skoða hvort hægt sé að leita fjármögnunar með fleiri leiðum en við höfum notað til þessa.