145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

fjármögnun samgöngukerfisins.

751. mál
[15:48]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og hef áhyggjur af því eins og margur þegar rætt er um samgönguáætlun til framtíðar. Það er alveg ljóst að þegar ráðherra leggur fram þessa samgönguáætlun á sínum tíma segir hún að þetta sé áætlun sem hún treysti sér til að standa við. Nú er búið að samþykkja ríkisfjármálaáætlun þar sem munar heilmiklum fjármunum, mörgum milljörðum. Því hlýtur spurning til ráðherrans að vera sú hvort hún geti stutt ríkisfjármálaáætlun sem harmónerar ekki við þá samgönguáætlun eða hvort hún geri ráð fyrir því að vinnan í samgöngunefnd beinist að því að skera hana niður til að mæta ríkisfjármálaáætlun.

Það hefði líka verið skynsamlegt að taka inn einhverja aura á eldsneyti þegar ljóst er að heimsmarkaðsverð á olíu er eins lágt og það er núna meðan verið er að ná inn peningum í ríkiskassann. Síðan verður maður auðvitað að spyrja: Hvað líður vinnu um innanlandsflugið og nefnd skilaði af sér um, getur ráðherra frætt okkur eitthvað nánar um það, (Forseti hringir.) þar sem lagt var til að lækka ætti verð á innanlandsflugi? Nú síðast er dæmi um fullorðinn einstakling(Forseti hringir.) og tvö börn frá Egilsstöðum til Reykjavíkur og til baka upp á 76 þús. kr., sem nær náttúrlega ekki nokkurri átt.