145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

ferðavenjukönnun.

752. mál
[15:58]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hreyfa þessu máli. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að ferðavenjukannanir gegna mikilvægu hlutverki að því leyti að þær geta gefið ákveðna mynd af því hvernig rétt er að þróa samgöngukerfi og stuðla að því að við fjárfestum rétt. Til að hægt sé að skipuleggja slíkt kerfi með hagkvæmni og heildarábata að leiðarljósi er nauðsynlegt að afla upplýsinga um upphafs- og endastöð þeirra sem nota samgöngukerfið og hvernig. Þetta á sérstaklega við um uppbyggingu þéttbýliskjarna en getur líka verið mikilvægt víðar um land svo skipuleggja megi samgöngukerfið heildstætt.

Ferðakannanir hafa verið unnar af hálfu ríkisins í rúman áratug og hefur Vegagerðin komið að gerð þeirra, oftast í samvinnu við aðra. Flestar ná aðeins til höfuðborgarsvæðisins, eins og hv. þingmaður nefndi, en nokkrar fjalla einnig um aðra landshluta og byggðarkjarna. Þá hafa verið unnar ferðavenjukannanir á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega. Þær hafa, eins og hv. þingmaður nefndi, verið notaðar við ákvörðunartöku.

Innanríkisráðuneytið hefur síðustu tvö ár verið þátttakandi í ítarlegum rannsóknum á skóla- og vinnusóknarsvæðum í samstarfi við Byggðastofnun, Skipulagsstofnun, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ráðgjafarfyrirtækið Viaplan, sem hefur annast rannsóknirnar. Hafa þær verið styrktar af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Lokið er rannsókn á ferðavenjum innan vinnu- og skólasóknarsvæðisins á höfuðborgarsvæðinu, á Miðausturlandi einnig. Nú er verið að vinna að gerð slíkrar áætlunar á Vestfjörðum. Þá verða sambærilegar rannsóknir unnar á vinnu- og skólasóknarsvæði Akureyrar og Húsavíkur á næstunni. Áform eru um að gera slíkar úttektir á öllum vinnu- og skólasóknarsvæðum landsins til að greina mörk þeirra, m.a. hvernig fólk ferðast daglega og hversu langt eða lengi það er reiðubúið til að aka, hjóla eða fara með strætó getum við sagt eða eftir atvikum annars konar rútukostum, eða ganga til og frá skóla eða vinnu.

Notkun samgöngukerfisins hefur einnig breyst mikið síðustu ár og ekki síst núna á allra síðustu missirum vegna fjölgunar ferðamanna. Verulegar líkur eru á því að breyttir lífshættir og tækniþróun hafi haft og komi til með í enn ríkari mæli að hafa áhrif á ferðavenjur. Ekki síst í því ljósi hef ég íhugað hvort ekki sé þörf á að efla reglulegar rannsóknir á ferðavenjum, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land.

Við þekkjum það að víða erlendis eru kannanir framkvæmdar reglulega á því hvaðan fólk er að koma og hvert það er að fara innan samgönguneta, þá sérstaklega vegamannvirkja. Þetta eru ítarlegri upplýsingar en við höfum verið að safna, en rannsóknirnar eru að sjálfsögðu töluvert kostnaðarsamar. Við þurfum að mínu mati áður en ákvörðun verður tekin um að fara í slíkar rannsóknir á landsvísu að kanna hvernig afla megi upplýsinga sem þessara á sem skilvirkastan hátt. Mér skilst að í nágrannalöndum okkar hafi verið horft til þess að notfæra þróun í tækni- og upplýsingakerfum betur. Í því sambandi þarf auðvitað að stíga varlega til jarðar út af persónuverndarsjónarmiðum.

Kjarni málsins og kannski það stutta svar við fyrirspurn hv. þingmanns er að ég tel að ferðavenjukannanir séu mjög mikilvægar í að meta það og skoða hvernig við eigum að þróa hlutina til lengri tíma. Ég held að mjög mikilvægt sé líka að líta á samspil milli þeirra sem aka á sínum eigin bílum og þeirra sem fara aðrar leiðir. Ég held að það sé mikilvægt, ekki einungis nefnilega á höfuðborgarsvæðinu, þótt það sé kannski með dálítið öðrum formerkjum heldur en annars staðar, en ekki síst á vegum landsins, og að við gerum okkur grein fyrir því hvers konar umferð þar er um að tefla, því að við erum líka hreinlega að horfa á það hvers konar umferð er á vegakerfi og samgönguinnviðum landsins.

Ég tek því undir með hv. þingmanni að slíkar rannsóknir þyrfti að gera. Við höfum núna eins og gefur að skilja, ekki síst í kjölfarið á þessari fyrirspurn, farið yfir þetta svið eins og ég hef reynt að gera í þessu svari og komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að gera slíkar heildstæðar kannanir.