145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

ferðavenjukönnun.

752. mál
[16:05]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Hæstv. forseti. Ég held að óhætt sé að segja að sú unga kynslóð sem vex núna úr grasi lítur á sjálfa sig sem miðdepil í heiminum, ef við orðum það bara þannig. Ég efast um að hún muni víla það fyrir sér, ungviðið okkar, að fara þangað sem henni sýnist til að leita að ævintýrum og tækifærum. En við þurfum auðvitað að gera okkur grein fyrir því á Íslandi þegar við skipuleggjum öll okkar mál að við viljum hafa okkar unga fólk hér. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að við viljum endilega að það fari til útlanda og komi til baka aftur, það er það sem við viljum. Við viljum hafa það þannig að fólkið komi heim og við höldum áfram að þróa okkar ágæta land og okkar samfélag.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að ég held að fróðlegt væri að gera sér betur grein fyrir væntingum kynslóðanna. Ég gæti trúað því að það sé ögn mismunandi á milli kynslóða hvernig fólk lítur á samgöngukerfið og hvað það vill sjá í notkun. Ég býst líka við að töluvert mikill munur sé sums staðar á landinu miðað við höfuðborgarsvæðið eða stærri þéttbýliskjarna. Ég hef enga almennilega tilfinningu fyrir því sjálf hvernig það er í raunveruleikanum. Maður getur haft einhverja skoðun á því að hér á þessu svæði séu sjónarmið með einhverjum öðrum hætti, en áhugavert væri að spyrja að því. Ef maður vill ráðast í stórar kannanir þarf auðvitað að spyrja að sem flestu. Það er ekki síst spennandi að spyrja að því hvernig fólk vill hafa hlutina.