145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

vegagerð í Gufudalssveit.

760. mál
[16:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Í þessari umræðu langar mig að eiga samtal við hæstv. innanríkisráðherra um vegaframkvæmdir í Gufudalssveit. Eins og mörgum er kunnugt hafa umbætur á Vestfjarðavegi nr. 60 um Gufudalssveit verið í hnút til allt of margra ára. Þolinmæði margra íbúa, ef ekki allra, m.a. á sunnanverðum Vestfjörðum vegna þessara mála er á þrotum og skal engan undra þar sem málið hefur verið í hnút til of margra ára. Það er óhætt að segja að umræddur vegur, sérstaklega um Ódrjúgsháls og Hjallaháls, sé stórhættulegur og hamlandi fyrir þá sem þurfa hann að fara, þar eru snarbrattar og þröngar brekkur sem geta verið hættulegar, sérstaklega í hálku og mikilli bleytu. Það hefur verið þannig að þungatakmarkanir hafa verið settar á þennan veg, m.a. sökum mikillar bleytu þar sem vegurinn er mjög ótraustur og hætt við að bílar fari út af og því miður er það ekkert einsdæmi að það hafi gerst.

Það er unnið að lausn þessara mála og mikil vinna hefur átt sér stað að ég veit bæði innan innanríkisráðuneytis og umhverfisráðuneytis. Hafi þeir hæstv. ráðherrar sem hafa unnið að því þökk fyrir það mikla verk. En þrátt fyrir það er sú staða sem uppi er núna ólíðandi fyrir þá íbúa sem búa m.a. á sunnanverðum Vestfjörðum. Þeir sem þar búa og þeir sem stunda atvinnurekstur á svæðinu þurfa á góðum samgöngum að halda. Fólk þarf að sækja ýmsa þjónustu til höfuðborgarinnar eða víðar þar sem mikið af þjónustu er eingöngu á höfuðborgarsvæðinu. Auk þess þurfa fyrirtæki að senda verðmætan farm suður til flutninga erlendis.

Það er ört vaxandi atvinnuuppbygging á sunnanverðum Vestfjörðum og þar getum við m.a. nefnt laxeldið. Þaðan fer t.d. mjög verðmætur farmur suður nánast hvern einasta dag. Það er ábyrgðarverkefni okkar hv. þingmanna og hæstv. ráðherra sem hér störfum að styðja við þessa atvinnuuppbyggingu og leita leiða hvernig við getum farið af stað í samgönguumbætur á þessum vegi um Vestfjarðaveg. Til að gæta sanngirni í þessu máli vil ég samt ítreka að ég veit að það er mikil vinna og reynt er að hugsa í lausnum innan beggja þessara ráðuneyta sem ég nefndi áðan.

Í samtölum mínum við heimamenn hefur hugmynd verið rædd. Hún er sú sama og ég spyr um í þeirri fyrirspurn sem við ræðum hér en hún orðast á þennan veg, með leyfi forseta:

„Kemur til greina að skipta vegagerð í Gufudalssveit þannig að sá vegarkafli sem ríkir sátt um verði boðinn út strax, þ.e. þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar?

Hér er ég því að velta fyrir mér hvort hægt væri að fara þessa leið. Ef það væri gert væri Ódrjúgsháls fyrr úr sögunni. Þegar niðurstaða fengist í margra ára deilumál yrði vegagerðin í Þorskafirði boðin út og vonandi að hægt væri að gera það sem allra fyrst.

Mig langar að heyra orð hæstv. innanríkisráðherra um þessa hugmynd sem ég velti hér upp í fyrirspurn minni og ítreka að ég veit að hæstv. innanríkisráðherra vinnur hörðum höndum ásamt umhverfisráðherra að finna lausn í þessum mikilvægu samgönguumbótum.