145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

vegagerð í Gufudalssveit.

760. mál
[16:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Elsa Lára Arnardóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. innanríkisráðherra fyrir svör hennar og þeim hv. þm. Haraldi Benediktssyni og hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur fyrir innlegg þeirra í umræðuna og tek undir það sem þau sögðu hér, það er þverpólitísk samstaða um þessi mál. Við erum öll á sama máli að það verður að reyna að hraða framkvæmdum eins og mögulegt er því að þessi deila sem staðið hefur til fjölda ára, allt of margra ára, er orðin of langvarandi og fólk bíður eftir umbótum. Þetta er ekki hægt. En við heyrðum það á orðum hæstv. innanríkisráðherra að vonandi er stutt í það að ákveðnar niðurstöður fáist í þetta ferli. Þá vona ég svo sannarlega að við finnum lausn á málinu og hægt verði að fara í útboð á verkefninu sem allra fyrst.

Mig langar í lokin að segja að þetta var auðvitað mikið til umræðu í kosningabaráttunni fyrir alþingiskosningarnar 2013. Þar mættu heimamenn á fund í Vesturbyggð og fjölluðu um mikilvægi bættra samgangna og töluðu um að það væri ekki hægt t.d. í mikilli bleytu að koma verðmætum fiskfarmi frá Vestfjörðum og jafnvel fyrir flutningabíla að koma verðmætum og vörum í verslanir þar sem vegurinn væri erfiður á köflum. Þar stóð ein góð kona upp á fundi og sagði, með leyfi forseta:

„Þessi deila um þennan veg er orðin of löng. Ég er hrædd um að ekkert verði gert fyrr en alvarleg slys verða á fólki. Mér finnst eins og mannslífið skipti minna máli en einhverjar hríslur í skógi. Þessir vegir eru stórhættulegir.“

Orð þessarar ágætu konu eru mér oft í huga þegar ég fer vestur sem ég geri iðulega vegna fjölskyldutengsla og mig langar að brýna hæstv. innanríkisráðherra sem er að vinna á fullu ásamt hæstv. umhverfisráðherra í þessum málum, að við vinnum öll saman sem hópur eins og við höfum gert hingað til í þessu brýna málefni og finnum lausn.