145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

skipting Reykjavíkurkjördæma.

761. mál
[16:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrir ekki svo löngu síðan, við síðustu kjördæmabreytingu, var Reykjavík skipt upp og er það eina sveitarfélagið á landinu sem er skipt upp í tvö kjördæmi. Ég held að það hafi í sjálfu sér ekki verið góð hugmynd. Kannski er óraunhæft að við getum breytt því miðað við það ástand sem er núna. Þetta gerir það t.d. að verkum að gamalgrónum hverfum eins og Vesturbænum og Hlíðunum og svo nýrri hverfum eins og Grafarholtinu er skipt upp í tvö. Ég held að fullyrða megi að hinn almenni Reykvíkingur hafi ekki mikla tilfinningu fyrir því hvaða þingmenn eru fyrir hans kjördæmi en eins og við þekkjum er því skipt í Reykjavík norður og Reykjavík suður.

Þingmenn Reykvíkinga eru þingmenn borgarinnar allrar og landsins alls eins og allir þingmenn eiga að vera. Það sem ég hef verið að velta fyrir mér, vegna þess að mér finnst vera lítil umræða um málefni Reykjavíkur í aðdraganda kosninga og almennt á hv. Alþingi, er hvort þessi skipting geri það að verkum að það verði enn minni áhersla á þessi mál. Tökum samgöngumálefni sem dæmi. Áhugasvið fólks skiptist svolítið eftir því hvort það býr í efri hluta borgarinnar, austari hlutanum, eða vestur frá. Þá er ég að vísa til þess að þeir sem búa í vesturborginni hafi kannski svipaða upplifun þegar kemur að samgöngumálum en við sem búum í efri hluta borgarinnar og keyrum t.d. í vinnu, sem mörg þúsund eða tugþúsundir gera á hverjum einasta degi, erum síðan með sérstaka upplifun sem mjög lítið er rædd, t.d. í aðdraganda kosninga.

Auðvitað eru fleiri mál, heilbrigðismálin og allra handa opinber þjónusta sem tengjast Reykjavíkurborg með beinum hætti, hagsmunamál Reykvíkinga sérstaklega. Mín upplifun og skoðun er sú að við ræðum þau lítið og í raun of lítið. Nú er ég ekki að tala um að fyrir alþingiskosningar eigum við bara að tala um mál sem snúa að okkar nærumhverfi, sama hvar við erum, en mér finnst hins vegar augljóst að við eigum að setja meiri fókus, svo ég sletti, virðulegi forseti, á þessi mál og ég velti því hér upp við hæstv. innanríkisráðherra hvort það væri (Forseti hringir.) skynsamlegra að skipta borginni frekar í austur og vestur en norður og suður.