145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Erlendir kröfuhafar á Íslandi virðast vera hamingjusömustu kröfuhafar í heimi. Nú þegar fyrir liggur uppgjörið við Ísland hafa þeir, a.m.k. eftir fregnum, boðið stjórnendum sínum, bæði sem tengjast eignarhaldinu á Arion banka og á Landsbankanum, himinháa bónusa ef endurheimturnar ná þeim markmiðum sem þeir hafa sett. Þetta hlýtur okkur öllum að vera mikið umhugsunarefni. En við hljótum líka að gjalda sérstakan varhuga við bónusgreiðslum af þessu tagi þegar ástandið í heilbrigðiskerfinu, hjá lífeyrisþegum og stórum hópum í samfélaginu er eins og það er, að einstaklingar séu að taka tugi og jafnvel hundruð milljóna í aukaþóknanir. Það hringir öllum viðvörunarbjöllum.

Vilji menn taka á bankabónusunum þá er það hægt. Það er hægt að beita lögum til þess að takmarka bónusgreiðslur í slitabúum og fyrirtækjum tengdum þeim. Það er hægt að beita lögum til þess að takmarka rétt manna til bónusgreiðslna hjá eigendum lykilfjármálastofnana í landinu. Það er hægt að beita, eins og Bretar gerðu á sínum tíma, gríðarlega hárri skattlagningu á greiðslur af þessu tagi vilji menn ekki fara löggjafarleiðina þannig að bónusgreiðslurnar verði meira eða minna teknar í ríkissjóð til að mæta velferðarsamfélaginu, útgjöldum í heilbrigðiskerfinu, kjörum aldraðra, öryrkja, fátækra barna og annarra sem á þurfa að halda.

Vilji er, virðulegur forseti, allt sem þarf. Það dugar ekki að ráðherrar okkar standi ráðalausir í þessu. Hér þarf áður en þingið hverfur frá þessu kjörtímabili að klára mál sem taka á þessu áður en við fréttum af enn fleiri bónusum á enn fleiri stöðum (Forseti hringir.) um enn hærri fjárhæðir og öll vitleysan endurtekur sig aftur og enn.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna