145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Herra forseti. Ég velti fyrir mér hvað sé að gerast í okkar litla samfélagi. Það er myljandi gróði og uppgangur í ferðaþjónustu, fiskveiðiauðlind þjóðarinnar skilar arði sem aldrei fyrr og slitabú gjaldþrota banka greiða starfsmönnum sínum milljarða í bónus. Væri ekki ráð að skattleggja sérstaklega svona ofsagreiðslur, eins og fram hefur komið hér áður? Ráðamenn þjóðarinnar segja smjör drjúpa af hverju strái í efnahagslífinu og blússandi sé hagvöxturinn, en á sama tíma og þetta indæla góðæri ríkir í meginatvinnugreinum þjóðarinnar eru samt ekki til peningar til að reka leikskóla og grunnskóla skammarlaust. Biðlistar í velferðar- og heilbrigðisþjónustu eru lengri en ásættanlegt getur talist. Daglega dynja á okkur fréttir um slæma stöðu grunnskólanna og ekki síst í höfuðborginni. Skólastjórar í grunnskólum Reykjavíkurborgar lýsa yfir verulegum áhyggjum af fjárhagslegri stöðu skólanna og krefjast þess að forgangsraðað verði í þágu barnanna í borginni, reksturinn sé núna óviðráðanlegur og lögboðnu skólastarfi verði ekki sinnt við núverandi aðstæður. Er þetta ásættanlegt? Þarf ekki að skoða eitthvað betur tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga?

Um síðustu áramót biðu 800 börn á biðlistum eftir greiningu vegna hvers konar raskana og að sögn gengur lítið að vinna á þessum listum. Ég þreytist seint á að minna á þá staðreynd að um 6 þús. börn búa við varanlegan skort hér á landi, svo ekki sé minnt á slæma stöðu stórs hóps öryrkja og eldri borgara sem verða að láta sér það lynda að lifa við hungurmörk.

Um og yfir 60% fanga í íslenskum fangelsum eru haldin ADHD, þ.e. ofvirkni með athyglisbresti. Þetta kemur m.a. fram í viðtali við framkvæmdastjóra ADHD-samtakanna í fjölmiðlum í vikunni og þar kemur fram að úrræði vantar fyrir fanga með þessa greiningu. Meðal annars fá fangarnir ekki að taka lyf við sjúkdómnum á meðan þeir eru í afplánun. Hvaða rugl er það eiginlega? Ég velti því fyrir mér.

Herra forseti. Það er algjörlega ólíðandi hvað það er vitlaust gefið í þessu góða landi okkar. Og það að leggja ekki til nægt fjármagn í menntun og aðstoð við börnin okkar og nægt fjármagn til þeirra sem höllustum fæti standa í samfélaginu er mesta sóun sem hægt er að hugsa sér.


Efnisorð er vísa í ræðuna