145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vekur mikla athygli í ræðu hv. þingmanns og í áliti meiri hluta atvinnuveganefndar að menn ætla núna að efna til þjóðarsamtals um landbúnað, um stefnumörkun í greininni eftir að búið er að gera samning til tíu ára. Getur hv. þingmaður fullvissað þingheim um að það samráð verði nokkuð annað en sýndarsamráð? Því að til stendur engu að síður af hálfu meiri hlutans að afgreiða samninginn til tíu ára. Í hvaða stöðu verður ríkið til þess að endurmeta útgjöld og aðferðir samkvæmt samningnum í því sýndarsamráði sem fram undan er? Getur hv. þingmaður fullvissað þingheim um að það verði mögulegt fyrir ríkið að víkja frá ákvæðum samningsins bótalaust?

Það er líka með eindæmum af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja fram samning þar sem engin greining á samningsmarkmiðum hefur farið fram fyrir fram og það skuli vera þingsins eftir á að reyna að búa til markmið með samningsgerð um útgjöld til tíu ára, hjá ríkisstjórn sem er á síðustu metrunum, í andarslitrunum, lafmóð, örend, að reyna að slefa sér yfir marklínuna. Og það skuli þá virkilega vera metnaðarmál þess stjórnarmeirihluta sem situr í þessari framorðnu ríkisstjórn og veitir henni stuðning á Alþingi, að reyna að binda hendur þriggja næstu þinga með útgjöldum sem helst er hægt að jafna við Icesave, verstu útgáfuna af Icesave-samningum, 200 milljarðar ef allt er talið, jafnt tollvernd og bein útgjöld til næstu tíu ára.

Getur hv. þingmaður lofað því að hér sé hægt að endursemja? Getur hann lofað því að verið sé að ganga frá samningi til þriggja ára en ekki tíu?