145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég get lofað hv. þingmanni því að þingið hefur þær heimildir sem til þarf til að taka upp á hverjum tíma þær áherslur sem það sjálft vill leggja í samningum og samskiptum við bændur. Það kom rækilega fram á fundi hv. atvinnuveganefndar við undirbúning að þessu máli. Við höfum líka söguna til að vísa í í þeim efnum, því að ríkisstjórn sem hv. þingmaður studdi á sínum tíma gekk inn í búvörusamninga og lækkaði framlög til þeirra, síðan var samið um það eftir á þegar önnur stjórnarskipti höfðu orðið og þingmaðurinn studdi þá ríkisstjórn reyndar líka.

En það sem ég saknaði aftur á móti frá þingmanninum í hans ágæta andsvari var hvaða sýn hann hefði á þetta og hvað hann ætlaði að leggja til. Ætlar hann að leggja til það sem hann gerði oftast í fyrrverandi ríkisstjórn, að framlengja alltaf gömlu samningana aftur og aftur og takast aldrei á við breytingar og þora aldrei að takast á við það sem raunverulega þarf að gera, að brjótast út úr því sem m.a. skilar íslenskum sauðfjárbændum 25% tekjulækkun á þessu hausti.