145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er auðsvarað hvað ég vil gera. Ég vil taka á ofstýringarkerfinu í greininni, auka markaðsfrelsi. Ég sagði stjórnvöldum þegar var verið að vinna að þessari samningsgerð, að ef það kostaði tíu ára samning að losa okkur út óstjórnar- og ofstjórnarkerfinu sem við búum við þá væri ég alveg tilbúinn til þess. Vandinn er bara sá að hér eru menn ekkert að taka á því. Framleiðslustýringin er ekki afnumin. Og menn viðhalda óbreyttu ástandi.

Ég vil þess vegna líka spyrja hv. þingmann, vegna þess að hann sagði ósatt í ræðu sinni áðan að það væri nauðsynlegt að viðhalda undanþágunni frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn. Það kom skýrt fram frá Samkeppniseftirlitinu fyrir nefndinni að það væri ekkert í skyldunni til þess að sækja mjólk á sama verði um allt land sem krefðist undanþágu frá samkeppnislögum. Hvers vegna er meiri hlutinn að viðhalda þeirri skekkju, þvert á það sem ætlunin var þegar þeirri undanþágu var komið á 2004, hún átti að vera tímabundin, til að greiða (Forseti hringir.) fyrir samþjöppun í greininni? Hvers vegna (Forseti hringir.) er verið að viðhalda því?