145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að nýta mér þann rétt að fara í andsvar við hv. þm. Harald Benediktsson, framsögumann málsins fyrir hönd meiri hlutans. Ég kem svo að öðrum atriðum þegar ég flyt mitt nefndarálit á eftir.

Það sem mig langar í upphafi að spyrja hv. þingmann út í varðar samkeppnislög og undanþágu frá samkeppnislögum fyrir mjólkurframleiðslu í landinu. Ég spyr vegna þess að aðrir hlutar samningsins, t.d. sauðfjársamningurinn eins og kom fram á fundi í morgun og framleiðsla hjá Örnu í Bolungarvík og Kú í Kópavogi, eru undir samkeppnislögum. Sama má segja í raun og veru um garðyrkjubændur að ég veit best. Þarna nefni ég sauðfjárbændur, tvö fyrirtæki í mjólkuriðnaði, Örnu og Kú, og grænmetisframleiðendur, allt aðilar undir samkeppnislögum. Er þessi undanþága þá ekki tímaskekkja í dag og hefði ekki verið betra að við tækjum undanþáguna frá og felldum allar greinarnar undir samkeppnislög?

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Af hverju eru sauðfjárbændur, Arna, Kú og grænmetisframleiðendur undir samkeppnislögum en mjólkurframleiðendur, MS og Auðhumla, ekki?