145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í öllum meginatriðum er landbúnaður, úrvinnsla, dreifing, undir samkeppnislögum þótt við höfum haft þetta sérstaka ákvæði er varðar verkaskiptingu og heimild til hagræðingaraðgerða í mjólkuriðnaði sem við settum og hefur verið rakið hér. Þetta á sér líka miklu fleiri hliðar. Við getum rifjað upp söguna frá árinu 2002 þegar búið var að ákveða að hætta opinberri verðlagningu á heildsöluverði á mjólkurvörum og síðan var bakkað út úr þeirri ákvörðun. Það var ekki að kröfu íslenskra bænda. Það var að kröfu smásöluverslunar hér landinu þar sem þetta atriði, sama verðið fyrir þennan mikilvæga vöruflokk í íslenskri matvöruverslun, gerði að verkum að minni aðilar á markaði gátu treyst því að fá hann á sama verði.

Ég held að undanþága frá samkeppnislögum vegna mjólkuriðnaðar sé vonandi að verða óþörf. Ég held að fram að þeim tíma þurfum við að lyfta miklu grettistaki og skoða hvernig við framkvæmum samkeppnislöggjöfina, hvaða samkeppnismarkmiðum við viljum ná. Ég hef m.a. skrifað blaðagrein er fjallar um skortsölu og starfshætti á smásölumarkaði.

Ég vil líka minna á að hvað Samkeppniseftirlitið hefur sagt, t.d. í skýrslu sinni í janúar 2012 um matvörumarkaðinn, með leyfi forseta:

„Upplýsingar um innkaupsverð dagvöruverslana frá birgjum á algengum mjólkurvörum sýna að mjög lítill munur er á viðskiptakjörum til verslana og er þetta eini flokkurinn þar sem minni verslanir eru með svipuð kjör og stóru verslunarsamstæðurnar.“

Við getum ekki skoðað bara eina hlið á þessum teningi. Þetta er miklu stærra spilverk en oft kemur fram í umræðunni. Þetta snýr m.a. að því að við viðhöldum virkari samkeppni á smásölumarkaði. Við skulum ekki gleyma því.