145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst í raun og veru dálítið merkilegt það sem hv. þingmaður segir, með tilliti til þess að hv. þingmaður er þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem hefur borið fyrir sig að vilja viðskiptafrelsi og frelsi í viðskiptum o.s.frv., um að mjólkin og mjólkurframleiðsla sé undanþegin samkeppnislögum. Þess vegna spyr ég hv. þingmann aftur og bið hann að svara alveg skýrt varðandi það sem mér fannst koma hér fram: Ef til vill var undanþágan nauðsynleg meðan ákveðin hagræðing átti sér stað, en er hún nauðsynleg núna árið 2016? Ég segi nei og ég spyr hv. þingmann vegna þess að ég hef haft það sjónarmið og spurt gesti á nefndarfundum: Er það ekki bara til góðs fyrir Bændasamtökin og Mjólkursamsöluna og aðra hreinlega að stíga fram og segja: Já, við óskum eftir því núna að þessi undanþága falli brott og við föllum bara undir samkeppnislög eins og aðrar greinar landbúnaðarins?