145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þjóðarsamtal um landbúnað, sagði hv. þingmaður, en er það ekki einkennilegt að vilja lögfesta fyrst samninginn og spyrja svo álits, taka svo samtalið? Það er þetta sem við í Bjartri framtíð höfum bent á og ekki bara núna. Við báðum um það og kölluðum eftir því í þessum sal árið 2014, ítrekað, að við gerð þessara samninga yrði farið strax í samtal og samvinnu um samningana en það var ákveðið að gera það ekki. Núna vill stjórnarmeirihlutinn allt í einu gera þetta en nota bene eftir að þessi samningur verður lögfestur. Ég hræðist þetta og tortryggi.

Ég vil aðeins koma að afkomu bænda af því að hér var rakið hvernig meiri hlutinn hefur áhyggjur af henni. Það á að skoða þróun tekna. Ég skal segja ykkur hvernig hún er. Við dræma sölu eða við breytingu á gengi krónunnar, við hækkun á gengi eins og nú er, lækkar afurðaverð til bænda. Afurðastöðvar boða nú t.d. 10% lægra verð til sauðfjárbænda. Þessi samningur bregst þannig við að auka gripagreiðslur. Það mun leiða til meiri framleiðslu, þetta er bara mjög einföld hagfræði, verð lækkar með auknu framboði og svona verður afkoma bænda. Hún verður áfram lakari og enn lakari með samþykkt á þessum samningi. Og mig langar ofureinfaldlega að spyrja: Af hverju einbeitir meiri hluti atvinnuveganefndar sér ekki að því að auka hag bænda (Forseti hringir.) og gera hann betri?