145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég held að það sé mjög mikilvægt, eins og ég rakti í framsögu minni, að við hefjum núna vegferðina að þessum stóru breytingum. Það er þess vegna sem sleginn er þessi tíu ára rammi, þess vegna erum við lögð upp í mikla breytingaferð og ég held að það þjóðarsamtal sem við viljum núna setja ákvæði um í lögin og ræsa fram sé mikilvægt sem hluti af því breytingaferli sem þarf að fara fram. Ég ber virðingu fyrir skoðunum hv. þingmanns um það hvort þetta hafi átt að koma á undan eða eftir en veruleikinn er einfaldlega sá að hinn kosturinn er að gera ekki neitt, halda áfram með gömlu samningana og fresta því enn um sinn að takast á við þessa umræðu á meðan við bíðum eftir einhverju öðru skipi.

Ég tek undir með hv. þingmanni um þróun á afkomu bænda og veit að hún hefur góða þekkingu á því og áhyggjur líkt og við mörg fleiri. Ég held að það sé nefnilega svo mikilvægt þegar veruleikinn er orðinn þessi — um langan tíma var skilaverð á nautakjöti til bænda lægra og svipað og í öðrum löndum, núna er skilaverð á lambakjöti til bænda mun lægra en í öðrum löndum — að við skoðum allan virðisaukaferilinn, allan vinnsluferil vörunnar frá bónda til neytanda og áttum okkur á því hvar óhagkvæmnin er. Hvar verður verðið til? Ég held að ekki fyrr en við erum búin að komast í gegnum þá umræðu getum við tekist á við það. Ég held að við getum sagt með ágætri samvisku að næstum hver einasta búgrein á framleiðandastiginu sé fyllilega samkeppnishæf þrátt fyrir allt, þrátt fyrir fámennið, þrátt fyrir legu landsins í heiminum, en þegar farið er í gegnum allan vinnsluferilinn keyrir út af einhvers staðar. (Gripið fram í.) Það geta verið margar ástæður fyrir því sem við þurfum að komast að.