145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[14:58]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Við höfum gengið í gegnum mörg breytingaskeið eins og hv. þingmaður rekur. Við höfum gengið í gegnum offramleiðslu, við höfum gengið í gegnum fækkun bænda. Við höfum líka gengið í gegnum skort. Þegar undirbúningur samningsgerðar að þeim samningum sem við fjöllum um í dag hófst leit t.d. út fyrir skort á mjólk. Það er ekki þannig lengur.

Ég hef ekki sömu áhyggjur af því að þær breytingar sem leiddar eru fram í búvörusamningnum sem við erum hér að staðfesta leiði til offramleiðslu eða verulegrar fjölgunar sauðfjár eins og hv. þingmaður hefur áhyggjur af og hún hefur rakið skilmerkilega. Ég held t.d. að þau verð sem nú er verið að bjóða fyrir þessa framleiðslu sé ekki beint hvetjandi fyrir bændur að stækka bú sín eða leggja út í meiri tilkostnað við þá framleiðslu.

Hvað kemur út úr samtalinu sem ég hef ekki séð áður? Ég held að það sé mjög mikilvægt að þingið, hið háa Alþingi, og atvinnuveganefnd, geti ekki verið að leggja einhverjar línur um það hvað eigi að koma út úr því. Ég hef ákveðnar hugmyndir hvað ætti að koma út og hvernig við ættum að bregðast við. Veruleikinn er því miður sá (Forseti hringir.) að okkur hefur í langan tíma vantað góða statístik um ýmsa þætti í búvöruframleiðslunni og við þurfum að ráða bót á því.