145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni, vini mínum, Össuri Skarphéðinssyni, fyrir þetta andsvar án þess að ég fari inn í lúðvískuna eða annað hvað það varðar. Meginspurning hv. þingmanns til mín var um sauðfjárbændur og þær áhyggjur sem ég setti fram í ræðu minni um afkomu sauðfjárbænda og hv. þingmaður tekur undir. Þá er það rétt sem hann ræðir hér um gagnvart veikustu byggðum landsins. Það var þannig að til nefndarinnar komu bændur af Ströndum, úr Dölunum og úr Húnavatnssýslu, ef ég man rétt. Því miður er ég ekki með þetta gagn við hliðina á mér. Þeir höfðu látið fara í gegnum áhrif af þessum samningi fyrir sig og sitt svæði, ef þetta allt gengur eftir. Þeir lýstu miklum áhyggjum og lýstu útreikningum, þetta var rosalega faglega og flott gert, um mikla lækkun til þeirra á þessum veikustu stöðum. Það er eitt af vandamálunum við þennan samning plús svo aftur það að við getum farið yfir í beitarlönd og annað slíkt þar sem beitt er miklu sauðfé á gosbelti og önnur svæði sem eru mjög góð fyrir sauðfjárbeit, þar sem kannski er samdráttur eða er að fækka. Inn í þetta blandast það auðvitað líka. En þarna komu fram hjá þeim miklar áhyggjur. Hins vegar vil ég segja, eins og ég sagði í nefndaráliti mínu, að það er hlutverk Byggðastofnunar að fara í gegnum þetta og útfæra reglur og úrræði til að koma til móts við hinar veikustu byggðir og styrkja þær sérstaklega umfram þær sem eru sterkari.