145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta sannferðuga svar hv. þm. Kristjáns Möllers sýnir hvað menn fara af stað af veikum þrótti í þetta mál. Ég fæ ekki betur skilið af svari hv. þm. Kristjáns L. Möllers en að menn hafi anað út í þennan samning af hálfu bændaforustunnar og hæstv. ríkisstjórnar án þess að gera sér grein fyrir hverjar afleiðingarnar yrðu. Það er umdeilanlegt meðal margra hvort eigi yfir höfuð að veita fé til þess að styðja landbúnaðarframleiðslu á Íslandi. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að hjá því verði ekki komist og ég tel að ef menn gera það á annað borð verði að hafa ákveðin markmið að leiðarljósi. Í fyrsta lagi þurfa menn að hugsa um landið og gæta þess að slíkum stuðningi sé einkum hnitmiðað þar sem ekki er hætta á að það leiði til gróðureyðingar eins og á viðkvæmum svæðum í grennd við gosbelti. Af því leiðir síðan í öðru lagi að það ætti að hnitmiða slíkum stuðningi á svæði eins og ég nefndi, t.d. á Vestfjörðum og í Húnavatnssýslum, þar sem ekki er hætta á svona og þar sem byggðirnar eru gisnar, þar sem þær þurfa á því að halda að hafa sterk og öflug sauðfjárbú. Samkvæmt þessu svari frá þeim manni sem ég treysti best í þessum efnum mundi ég telja að byrjun þessa máls hefði verið með slíku handarbakalagi að menn hafi ekkert vitað hvað þeir voru að gera. Það getur vel verið að núna eigi, eins og hv. framsögumaður og reyndar hv. þm. Kristján Möller segja, að það eigi að skoða þetta síðar. En hvers vegna var þetta ekki skoðað á undan? Ég veit að ég á ekki að vera að skamma hv. þm. Kristján L. Möller fyrir það, hann hefur reynt að beita sér með jákvæðum hætti í málinu, en það er meiri hlutinn sem hlýtur að þurfa að standa undir þeirri ábyrgð að skýra hvernig stendur á því að menn fara af stað með þessum hætti, með hætti sem leiðir til þess að veikustu bændurnir koma verst út.