145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem hv. þingmaður gerir að umtalsefni í seinna andsvari sínu við mig, sem er alveg rétt, er að inn í þetta þarf að blandast að skoða landsvæði þar sem gott er að beita sauðfé og annað svæði þar sem verra er að beita sauðfé. Ég tek sem dæmi gosbeltið, eins og margoft hefur komið fram og í umsögnum frá ýmsum aðilum sem ég ber mikla virðingu fyrir, sem sendu okkur umsögn hvað þetta varðar. Það er eins með það og margt annað, það er ekki hægt að taka tillit til þess.

Ég segi fyrir mitt leyti og ítreka það sem ég sagði áðan, ég veit ekkert hvað kemur út úr tillögum Byggðastofnunar en við höfum séð fyrstu drög og þau eru þannig að segja má að vonandi sé Byggðastofnun þar á réttri leið, þ.e. að taka fjarlægðarmælingu frá þéttbýlisstöðum þar sem bændur geta leitað sér vinnu og styrkja þá meira hjá þeim sem þurfa langan veg að fara eða geta jafnvel ekki sótt sér neina vinnu.

Það kom líka fram á einum bændafundi sem ég fór á, bændur í Eyjafjarðarsýslu funduðu í Hlíðarbæ rétt norðan við Akureyri, sem var mjög merkilegur fundur þar sem mér fannst eins og bændur væru hálfpartinn með handbremsuna á og að þeir ræddu ekki málin af fullri hreinskilni. Það gerðist hins vegar eftir að fundi lauk, í anddyrinu í Hlíðarbæ, í samtölum mínum við nokkra bændur og í framhaldi því af samtölum í síma við fjölmarga bændur sem hafa lýst áhyggjum sínum. Þar eru fjölmargir sauðfjárbændur og m.a. á þessum veiku svæðum sem ég nefndi áðan en önnur veik svæði eru líka, þar sem þeir eru greinilega mjög óhressir með þennan samning og það sem þar stendur og hafa áhyggjur af því hvernig þetta verður útfært fyrir þá.