145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Staðreyndin er sú að í umliðnum búvörusamningum hefur ekki tekist það markmið sem stundum hefur verið lagt upp með, að offramleiðsla minnki. Það sýna þær töflur frá ráðuneytinu sem ég hef verið að vitna hér í og eru birtar sem fylgiskjöl með nefndaráliti mínu. Það hefur verið að aukast. Og það sem ég óttast er að það aukist áfram. Mínar upplýsingar og áhyggjur bænda eru m.a. þær að margir kúabændur, mjólkurframleiðendur, sem eru með fáar kýr í fjósi og ekki mikinn kvóta hugsi sér jafnvel til hreyfings um að selja þann kvóta nú áður en ríkið fer að kaupa um næstu áramót, ef hann selst þá á viðunandi verði núna, sem bændur þurfa að fá fyrir, kannski eru einhverjir nýbúnir að kaupa eða guð má vita hvað; að þeir muni færa sig úr mjólkurframleiðslunni og auka við sig í sauðfjárræktinni. Þess vegna er það spá mín að þær tölur sem við erum að vinna með núna um framleitt magn og innanlandsneyslu og útflutning, að það magn muni aukast og innanlandsneysla muni ekki aukast að neinu magni, þó að það gerist vonandi, en að þörfin fyrir útflutning haldi áfram að aukast og verð sem við fáum fyrir útfluttar sauðfjárafurðir lækki jafnvel eins og ég geri að umtalsefni í nefndaráliti mínu.

En aðeins í lokin út af því sem kom hér fram um svæðisbundinn stuðning sem Byggðastofnun á að útfæra, þá er það á árinu 2017 99 milljónir, árinu 2018 145 milljónir og það sama 2019 og svo svipuð tala út þetta tíu ára samningstímabil. Þetta er sú upphæð sem þarna er sett inn, sem Byggðastofnun er ætlað að nota í það göfuga markmið sem ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson töluðu um, af því að spurningar hans til mín í stuttu andsvari fjölluðu um það, sem þarf að nota til að styrkja sauðfjárframleiðslu á veikustu svæðum landsins.