145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér búvörusamninga og búnaðarlagasamning. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti 2. minni hluta og ætla að flytja það og síðan að reifa aðeins þessi mál almennt.

Annar minni hluti telur að ef frumvarpið verður að lögum verði ýmsar breytingar á starfsumhverfi íslensks landbúnaðar. Frumvarpið felur í sér lagabreytingar til að innleiða ákvæði búvörusamninga sem voru undirritaðir í febrúar 2016 og eru samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu, samningur um starfsskilyrði sauðfjárræktar, samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða og rammasamningur um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins. Málinu tengist einnig órjúfanlegum böndum tillaga til þingsályktunar um staðfestingu samnings Íslands og Evrópusambandsins, þ.e. tollasamningurinn, og gerð er grein fyrir afstöðu Vinstri grænna til þessa í sérstöku nefndaráliti þar sem ýmsir mikilvægir þættir eru gagnrýndir en einkum er bent á aðvörun sóttvarnalæknis um að útbreiðsla sýkla og sýklalyfjaónæmra baktería sé meðal helstu heilbrigðisógna samtímans. Slíkir sýkingarvaldar berast m.a. með ferskum matvælum og er talin hætta á að vaxandi innflutningur þeirra hingað til lands leiði til aukinna vandkvæða af því tagi.

Annar minni hluti telur mikilvægt að matvælaframleiðsla til innanlandsneyslu fari fram hér á landi í eins miklum mæli og aðstæður leyfa og að verja megi opinberu fé til að styðja við þetta sjálfbærnimarkmið. Opinber stuðningur til framleiðslu landbúnaðarafurða á sér langa sögu hérlendis og er mikilvægur hluti starfsskilyrða landbúnaðarins. Innlend matvælaframleiðsla snertir hag allra landsmanna og því skiptir miklu að vel takist til við gerð búvörusamninga þannig að víðtækt samkomulag geti náðst um þennan mikilvæga þátt íslensks efnahagslífs.

Einmitt sökum þess hve áhrif búvörusamninga eru margþætt er gerð þeirra ávallt vandasöm. Búvörusamningar hafa áhrif á byggð og byggðaþróun, atvinnu í dreifbýli og þéttbýli, framboð og verðlag á landbúnaðarafurðum, matvælaöryggi, sjálfbærni samfélagsins og hollustuhætti og lýðheilsu svo eitthvað sé nefnt. Búvörusamningar eru því annað og meira en kjarasamningar milli opinbera aðila og bænda, eins og stundum er haldið fram, og má með réttu segja að áhrifa þeirra gæti hvarvetna í samfélaginu.

Gildandi búvörusamningar renna sitt skeið á enda í lok árs 2016 og 2017. Því voru nýir búvörusamningar og búnaðarlagasamningur milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands undirritaðir í febrúar að undangenginni samningalotu og hlutu samningarnir samþykki bænda nokkru síðar. Þeir voru gerðir með fyrirvara um nauðsynlegar lagaheimildir Alþingis sem eitt hefur heimild til að gera slíkar fjárskuldbindingar.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar önnuðust gerð búvörusamninganna við bændur upp á sitt eindæmi og án þess að leita samstarfs um það verkefni við fulltrúa stjórnarandstöðunnar. Takmarkað ef nokkurt samráð virðist einnig hafa verið við fleiri aðila sem málið varðar og er það gagnrýni vert, sem og að óheppilegt er að gildandi samningar séu því sem næst útrunnir þegar nýir eiga að taka við. Tiltekinn fyrirsjáanleiki um starfsskilyrði er að sjálfsögðu mikilvægur fyrir allar atvinnugreinar en það á alveg sérstaklega við í tilviki búvöruframleiðslunnar sem byggist á langri framleiðslukeðju. Þar sem samráð og samstarf skorti ber ríkisstjórnin ábyrgð á efni samninganna hvað ríkið varðar og framkvæmd málsins frá upphafi til enda.

Fjöldi umsagna hefur borist til Alþingis vegna málsins og mikið hefur verið fjallað um samningana á opinberum vettvangi. Eins og vænta mátti um slíkt mál hafa skoðanir verið skiptar en mikið hefur borið á gagnrýni á tímalengd samninganna, sem gerðir voru til tíu ára, og fjárhæðir sem renna eiga til landbúnaðarmála hafa mætt gagnrýni sem og áform um að afleggja framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu. Þá hefur sauðfjársamningurinn mætt umtalsverðri andstöðu, ekki síst á hefðbundnum sauðfjárræktarsvæðum og þar sem sauðfjárrækt er meginatvinnugrein. Margir óttast að framleiðsla geti flust af þeim svæðum til annarra héraða vegna áhrifa samningsins og einnig að hvatar til aukinnar framleiðslu geti skapað offramboð lambakjöts og annarra sauðfjárafurða á markaði. Þá hefur verið lýst áhyggjum af því að hagsmunir neytenda séu fyrir borð bornir og ekki tekið nægilegt tillit til umhverfissjónarmiða, hvorki í íslensku né alþjóðlegu samhengi. Má þar sérstaklega nefna loftslagsáhrif, sjálfbæra landnýtingu og fleira er að því lýtur. Ýmis önnur atriði samninganna hafa mætt gagnrýni, svo sem að á það skorti að samkeppnissjónarmiða sé gætt hvað varðar mjólkurafurðir. Verða ásteytingsefnin ekki öll rakin hér, en áréttað að allnokkuð vantar upp á til þess að búvörusamningarnir þjóni markmiðum um sjálfbæran landbúnað og innlenda matvælaframleiðslu í þágu samfélagsins þar sem byggt er á sjónarmiðum um umhverfisvernd, dýravelferð og hollustuhætti. Þá ættu samningarnir að kveða skýrar á um upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda, enda mikilvægt að traust ríki á milli framleiðenda og neytenda og skilvirk og trúverðug upplýsingagjöf skiptir miklu í því samhengi.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur áherslu á sjálfbæra landnýtingu í landbúnaðarstefnu sinni og telur mikilvægt að framlög hins opinbera styðji við slík markmið. Sjálfbærnihugtakið felur m.a. í sér að ekki er gengið svo að endurnýjanlegum auðlindum með nýtingu að þær rýrni eða hverfi. Beitarland telst til endurnýjanlegra auðlinda og því er mikilvægt að stilla beit í það hóf að ekki verði tjón á beitarlandinu þannig að auðlindin sem í því felst fari forgörðum. Ákvæði búvörusamninga um nýtingu og vernd gróðurlendis þyrftu að vera afdráttarlausari og mikilvægt er að áform um landgræðslu og kortlagningu gróðurlendis með tilliti til beitarþols þess nái fram að ganga og verði nýtt við framkvæmd landbúnaðarstefnu stjórnvalda. Þar sem endranær er nauðsynlegt að gæta þess að nýting náttúruauðlinda fari fram með sjálfbærum hætti, hvort sem afurðirnar fara til neyslu innan lands eða á erlenda markaði.

Vakin skal athygli á því að með ákvæðum fyrirliggjandi samnings er endanlega horfið frá því markmiði sem búvörusamningarnir frá 1991 festu í sessi og fólst í því að miða skyldi stuðning við landbúnaðarframleiðslu við innanlandsneyslu landbúnaðarafurða. Með því að tengja saman framleiðslu og innanlandsneyslu mynduðust bein tengsl milli bænda og innlendra neytenda um sameiginlega hagsmuni þessara hópa af því að halda uppi innlendri framleiðslu á landbúnaðarafurðum sem nú fara forgörðum og með þeim stór hluti forsendna þess búvörusamnings sem lýtur að sauðfjárbúskap.

Mikilvægt er að mörkuð verði skýr landbúnaðarstefna með tilliti til loftslagsmála og henni framfylgt, m.a. með því að skilyrða opinber framlög til landbúnaðar við eftirfylgni við markmið á því sviði. Landbúnaður er mjög mikilvægur í samhengi umhverfis- og loftslagsmála. Greinin hefur veruleg umhverfis- og loftslagsáhrif sem sum hver eru neikvæð en hún býr jafnframt yfir fleiri og áhrifaríkari möguleikum til að hafa jákvæð áhrif á þessu sviði en margar aðrar atvinnugreinar. Framleiðsla á landbúnaðarafurðum í námunda við neytendur dregur úr mengun og öðru umhverfisálagi af völdum flutningastarfsemi og gróðurrækt stuðlar að kolefnisbindingu. Notkun endurnýjanlegra og umhverfisvænna orkugjafa í landbúnaði er vitaskuld afar mikilvæg og ber að stuðla að henni með öllum ráðum. Tengsl búvörusamninga við framangreind markmið ættu að vera meiri og skýrari en þau eru þótt vissulega hafi áunnist margt í þessum efnum við meðferð málsins í atvinnuveganefnd. 2. minni hluti telur þó ærna ástæðu til að gera betur og leggur til með breytingartillögu að skipaður verði samráðshópur til að meta umhverfisáhrif búvörusamninganna samkvæmt aðferðafræði umhverfismats áætlana og niðurstöður matsins verði nýttar við endurskoðun samninganna árið 2019.

Annar minni hluti fagnar því að stuðningur við lífræna landbúnaðarframleiðslu aukist og að veittir verði styrkir til aðlögunar að lífrænni framleiðslu. Enda þótt það hafi verið meðal höfuðkosta íslensks landbúnaðar að notkun ýmissa varhugaverðra efna sem gjarnan er beitt í landbúnaði annars staðar hafi verið í lágmarki hér má ætla að þróunin hérlendis verði með áþekkum hætti og víðast á Vesturlöndum þannig að eftirspurn neytenda eftir lífrænum vörum aukist. Það verður því samkeppnisatriði fyrir íslenskan landbúnað að fylgja þessari þróun eftir og mikilvægt af þeim sökum og einnig vegna umhverfis- og hollustusjónarmiða að búa vel að vaxtarsprotum á þessu sviði hér á landi.

Í 34. gr. frumvarps sem varð að lögum um velferð dýra, nr. 55/2013, var upphaflega lagt til að heimilt yrði að fella niður opinberar greiðslur í landbúnaði til þeirra sem gerðust brotlegir við ákvæði laganna og reglugerða samkvæmt þeim auk ýmissa annarra viðurlaga sem tiltekin voru. En þetta ákvæði féll niður samkvæmt breytingartillögu atvinnuveganefndar, m.a. á þeirri forsendu að þetta þvingunarúrræði ætti sér ekki stoð í gildandi búvöru- og búnaðarlagasamningum og benti nefndin á að rétt væri að kanna, eins og segir, með leyfi forseta, „hvort ekki sé rétt að skapa rými til upptöku úrræðisins við síðara tilefni, t.d. við endurskoðun búnaðar- og búvörulaga og endurnýjun samninga á grundvelli þeirra“. Undir þetta tekur 2. minni hluti og vísar m.a. til þess að það athæfi sem mundi heimila beitingu slíks þvingunarúrræðis felur í sér illa meðferð á dýrum sem einnig kallast dýraníð. 2. minni hluti er sammála þáverandi atvinnuveganefnd sem taldi úrræðið eðlilegt „og í góðu samhengi við þær kröfur sem telja má eðlilegt að gera til gagnaðila ríkisins að samningum sem fela í sér ráðstöfun opinbers fjár“.

Annar minni hluti bendir á að nú gefst tækifæri til að innleiða þvingunarákvæði í þessa veru og telur einboðið að nota það. Því leggur 2. minni hluti fram breytingartillögu þess efnis.

Ljóst var orðið þegar Alþingi kom saman um miðjan ágúst að ekki væri meiri hluti fyrir samþykkt óbreyttra búvörusamninga og í raun voru þeir starfshættir ríkisstjórnarinnar með ólíkindum að leggja fyrir þingið slíka langtímaskuldbindingu þegar svo skammt var orðið til þingloka. Atvinnuveganefnd var því í erfiðri stöðu við upphaf síðsumarþings með svo brýnt og mikilvægt mál í uppnámi og afar skamman tíma til stefnu. 2. minni hluti telur jákvæða viðleitni hafa verið sýnda í starfi atvinnuveganefndar við að lagfæra málið og sníða af því ýmsa vankanta og hefur 2. minni hluti lagt sitt af mörkum í þeirri vinnu. Enn á þó eftir að taka á mörgum mikilvægum þáttum sem snerta efni og framkvæmd samninganna til þess að þeir geti þjónað vel sem tæki til að móta og styðja við haldbæra landbúnaðarstefnu þar sem tekið er tillit til hagsmuna bænda, neytenda og umhverfis og leitað leiða til að samþætta þá til hagsbóta fyrir samfélagið í heild og náttúru landsins. Með hliðsjón af þessu telur 2. minni hluti sér ekki fært að styðja málið og mun sitja hjá við afgreiðslu þess en þó styðja þær breytingartillögur meiri hluta atvinnuveganefndar sem til bóta heyra.

Undir nefndarálitið skrifar sú sem hér stendur, Lilja Rafney Magnúsdóttir. Í fylgiriti með nefndarálitinu er landbúnaðarstefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem ég hvet alla til að kynna sér.

Ég ætla líka að gera grein fyrir breytingartillögunni sem fylgir nefndaráliti frá 2. minni hluta atvinnuveganefndar. Í fyrsta lagi:

„Við 12. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Heimilt er að fella niður greiðslur til þeirra sem brotið hafa gróflega eða ítrekað gegn ákvæðum laga um velferð dýra, nr. 55/2013, með síðari breytingum.“

Og í öðru lagi:

„Við 12. tölul. brtt. á þskj. 1592 bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Jafnhliða skipun samráðshópsins skal ráðherra skipa starfshóp til að meta umhverfisáhrif búvörusamningsins samkvæmt aðferðafræði umhverfismats áætlana, sbr. lög nr. 105/2006. Starfshópurinn skili ráðherra umhverfisskýrslu eigi síðar en 2019 og verði hún meðal annars forsenda fyrir endurskoðun búvörusamninga.“

Þannig hljóðar nefndarálit 2. minni hluta. Ég vil bæta því við og undirstrika að mér finnst að í atvinnuveganefnd, frá því að þing kom saman í ágúst, hafi verið reynt að lagfæra málið. Það verður auðvitað að segjast eins og er að illa var staðið að þessu í upphafi, að kalla ekki fleiri til, að ekki hafi verið viðhaft víðtækt samráð um gerð búvörusamnings í upphafi og að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi ekki notað tækifærið til að kalla fleiri að borðinu til að reyna að ná breiðari sátt um búvörusamninga á landsvísu, bæði stjórnarandstöðuna og ýmsa aðra aðila. Ég tel að það sé mikilvægt að gera það því að þótt þetta séu samningar milli þessarar greinar og ríkisins hafa þeir auðvitað víðtæk áhrif. Ég tel að það sé málinu í heild til góða að áfram verði sem mest jákvæðni gagnvart þeim ríkisstuðningi sem er til landbúnaðarins og að almenningur í landinu sjái að það skilar sér með svo mörgum hætti aftur til neytenda og skipti máli varðandi t.d. umhverfisþætti að við séum eins sjálfbær og við getum í matvælaframleiðslu hérlendis. Það er mikilvægt fyrir matvælaöryggi og byggð í landinu.

Það má segja að búvörusamningar séu ein stærsta byggðaaðgerðin í raun og veru því þetta hangir allt saman. Sveitirnar eru bæði bæjum og sjávarþorpum mikilvægar. Allt er þetta ein keðja út um allt land. Ef það hriktir í búsetu í sveitum smitar það líka út í stærri samfélögin. Mörg samfélög, segjum bara eins og hér nálægt okkur, Borgarnes, og fleiri staðir, Sauðárkrókur, mætti nefna Selfoss, og við getum farið víðar, þjóna landbúnaðargeiranum og á þessum stöðum er gífurlega mikil atvinnustarfsemi sem yrði ekki svipur hjá sjón ef landbúnaður mundi dragast mikið saman og hrikta í þeim stoðum. Það er hluti af því að við sem samfélag og þjóðfélag reynum að vera sjálfum okkur nóg og rækta eigin garð og horfa svolítið út fyrir skammtímahagsmuni, að það sé gróði í því að flytja inn sem mest af ódýrum landbúnaðarafurðum erlendis frá og missa úr höndum okkar það að vera sjálfbær í matvælaframleiðslu. Það er lítið á það að treysta hvernig verðsveiflur eru á innfluttum matvælum, gæði, aukaefni og lyfjanotkun og annað því um líkt. Allt í þessu samhengi skiptir máli, að við framleiðum hér innan lands hreina og góða afurð og það sé stutt á milli framleiðslunnar og neytandans.

Ég held að íslenskir neytendur séu alltaf að sjá það betur og betur að það skiptir máli að hafa öfluga landbúnaðarframleiðslu í landinu. En menn vilja þá líka hafa eitthvað um það að segja og stuðningurinn skili sér þangað sem hann á að skila sér. Við höfum t.d. heyrt þessa dagana, sem er mikið áhyggjuefni, að sauðfjárbændur verði fyrir miklum lækkunum á sínar afurðir. Þetta er auðvitað keðja. Það eru sláturleyfishafar sem boða afurðalækkun. Sláturleyfishafar og afurðastöðvar semja við stóru verslanirnar og verslanakeðjur um landbúnaðarafurðir frá bændum eins og lambakjöt. Það er alltaf spurning hvernig verðlagning afurðarinnar er frá bónda að lokasmásölustiginu, hvar hagnaðurinn myndast og hver situr uppi með neikvæða verðlagningu þegar einhver samdráttur verður. Það er auðvitað ekkert eðlilegt að það lendi alltaf á frumframleiðanda ef rekstrarkostnaður eykst eða eðlilegur launakostnaður eykst sem er bara í takti við það sem eðlilegt er, það gerist með reglubundnum hætti. Það er ekki eðlilegt að það sé eingöngu frumframleiðandinn sem taki lækkunina á sig þegar horft er upp á gífurlegan hagnað hjá stóru verslanakeðjunum eins og hér hefur verið nefnt, Högum og fleiri verslanakeðjum, sem skila milljarðahagnaði. Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir neytendur hvort ekki sé eðlilegra að á endanum skili smásalan þeim hagnaði frekar til frumframleiðenda, hann lendi í þeirra vasa eða fari þá til neytenda. Þetta held ég að sé eitthvað sem þurfi að skoða og glíma við, hvernig verð vörunnar myndast og hvernig skipting er á milli milliliða, hver fær hvað í sinn hlut, og að bóndinn sitji ekki alltaf uppi með að vera skorinn niður við trog og hafi í raun og veru mjög lítið rekstraröryggi eða litla tryggingu fyrir því að búa einu sinni við lágmarkskjör sem aðrir launþegar í landinu telja sjálfsagðan hlut. Það verður að vera einhver grunnur til að byggja á en í þessu sambandi virðist ekki vera nokkur botn í þeim efnum. Þótt eitthvert viðmiðunarverð sé gefið út af hálfu bænda er það mikið högg að fá á sig 10–12% lækkun á afurðum eins og núna er boðuð, sem þýðir um 25% launalækkun eins og komið hefur fram í máli framsögumanns.

Ég er hlynnt því að gerður sé rammasamningur við bændur. Ég tel að þeir þurfi að búa við ákveðið öryggi til lengri tíma. Margt í þeim rammasamningi sem hér liggur fyrir er ágætt, í raun skref í rétta átt og margt gott þar á ferðinni. En þarna eru líka margir þættir sem verður að nota þennan tíma til að taka á þar til endurskoðun verður eftir þrjú ár svo að illa fari ekki fyrir sauðfjárrækt, t.d. á jaðarsvæðum þar sem menn berjast við að halda rekstri sínum áfram og þurfa að hafa einhverja framtíðarsýn og tryggingu fyrir því að fé sé á vetur setjandi, eins og sagt er til sveita.

Ég vona að samráðsnefndin sem á að skipa hafi góða heildarsýn, ekki einhverja þrönga rörsýn á hvað hægt er að ná verði mikið niður eins og þeir aðilar sem framleiða þessa vöru þurfi ekki að lifa eins og við öll hin heldur sjái greinina í þjóðhagslegu samhengi. Það sé horft til landnýtingar og hvernig stuðningurinn nýtist best, líka innan lands til neytenda og hvaða tækifæri þessi grein hefur og skoðuð áhrif búvörusamningsins þegar upp er staðið á búsetuskilyrði í landinu og áhrif til lengri tíma. Allt þetta verður að vera undirliggjandi. Þarna þurfa að koma fram afleiðingar og áhrif búvörusamningsins til þetta langs tíma á þessar greinar í landinu, búsetu í landinu, áhrif á neytendur og hvernig við nýtum best þann fjárstuðning sem þarna er verið að tala um.

Í þessu samhengi hefur líka verið talað um tollasamninginn sem gerður var. Hann er stór áhrifaþáttur gagnvart búvörusamningnum. Það er mikið áhyggjuefni hver áhrif hans verða á framleiðslu innan lands á t.d. hvítu kjöti og hætta á að verið sé að hella yfir markaðinn tímabundið mjög ódýrri vöru sem enginn veit hvar er upprunnin á kostnað innlendrar framleiðslu. Menn hafa oft talað um að það eigi bara að flytja inn það hvíta kjöt sem framleitt er hér á landi en fyrir utan að skapa fjölda starfa og hlúa að atvinnu innan lands þá er miklu umhverfisvænna að geta framleitt þessa vöru í návígi við neytendur en að flytja hana heimshafa á milli. Eins og við vitum er verið að flytja hingað kjúklingabringur frá Tælandi og Víetnam og guð má vita hvaðan. Þetta kostar allt auðvitað og mengar, slíkur flutningar heimshafa á milli.

En ég er ánægð með að atvinnuveganefnd hefur verið mjög samstiga í að reyna að laga þetta mál. Kannski er verið að skamma þann ráðherra sem fór af stað í þessa vegferð án þess að eiga neitt samráð. Þetta er ákveðinn áfellisdómur gagnvart honum. En ég tel að í nefndinni hafi farið fram mjög uppbyggileg vinna við að reyna að lagfæra þetta án þess að rífa upp allan samninginn en að bændur hefðu þá fulla möguleika á því í lok þessara þriggja ára, þegar endurskoðun færi fram, að greiða aftur atkvæði. Þá kemur í ljós hvort einhverjar tillögur koma fram um breytingar á þeim samningi sem nú liggur fyrir. Hvort sem það koma tillögur að breytingum eða hvað verður þá lít ég þannig á að verið sé að segja: Samningurinn fer aftur í atkvæðagreiðslu við endurskoðun 2019. Ég held að það sé eitthvað sem við á öllum köntum og með ýmsa ólíka gagnrýni á þetta mál getum vel við unað.

Svo ætla ég í lokin að vera sérstaklega málefnaleg gagnvart framsögumanni meiri hluta nefndarinnar sem ég tel að hafi haldið vel á þessu máli. (Gripið fram í.) og mættu fleiri taka sér til fyrirmyndar slíka vinnu. Auðvitað eiga menn, burt séð frá því hvar í flokki þeir eru, að leggja sig fram við það að ná góðu talsambandi við þingmenn annarra flokka í svo viðamiklu máli sem hér liggur undir. Þó að menn séu ekki alltaf sammála er það þess virði að leggja lykkju á leið sína og vinna að því að ná góðri niðurstöðu því að menn komast lítið áfram ef þeir ætla bara að stjórna ferðinni einir og hafa ekkert samráð. Ég vil því segja þetta að lokum og þakka hv. þm. Haraldi Benediktssyni fyrir framlagið til þessa máls.