145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom skýrt fram í atvinnuveganefnd að það er ekki nein nauðsynleg forsenda þess að hægt sé að tryggja söfnun mjólkur um allt land á sama verði og dreifingu mjólkur um allt land á sama verði að Mjólkursamsalan njóti undanþágu frá samkeppnislögum. Það kom skýrt fram að það þarf ekki þessa undanþágu. Hún er hins vegar skálkaskjól þessa fyrirtækis í ofbeldisaðgerðum gagnvart keppinautum, litlum keppinautum. Það er alveg ótrúlegt að heyra þessa varðstöðu þar sem menn sveifla aftur og aftur alls konar hindurvitniskenningum um að það þurfi nauðsynlega undanþágu frá samkeppnislögum til þess að hægt sé að leggja almennar skyldur á Mjólkursamsöluna og umbuna henni fyrir það. Það er ekkert sem kallar á undanþágur frá samkeppnislögum í því. Hins vegar er það mjög skrýtið að sjá þá túlkun frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, ekki endilega frá hv. þingmanni en frá flokksbræðrum hennar, um að svona ofbeldisaðgerðir séu sérstaklega jákvætt (Forseti hringir.) innlegg og hluti af félagslegum rekstri. Það kemur óorði á félagslegan rekstur.