145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafney Magnúsdóttur nefndarálit hennar og framsögu og ekki síður fyrir vitnisburð hennar um ágæta vinnu og samstarf í atvinnuveganefnd sem hún hefur ekki síst, með fullri virðingu fyrir öllum sem þar sitja, lagt sitt lóð á vogarskálarnar, svo það sé sagt. Það er alveg óhætt að segja, frú forseti, að það mætti vera meira kastljós á störf þingsins og það hvernig unnið er í nefndum og hvernig hægt er að vinna málefnalega að málum. Ég tek eftir því að tveir hv. nefndarmenn í atvinnuveganefnd, hv. þm. Kristján L. Möller og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, hafa borið vitni um að þingmálið hafi tekið heilmiklum framförum við vinnu nefndarinnar og orðið jákvæðar breytingar.

Það sem ég vildi taka upp við þingmanninn er tillaga hennar sem lýtur að sviptingu stuðnings við brot á velferð dýra. Nú ætla ég að taka fram að aldrei ætla ég að réttlæta slík brot, en vil aftur á móti ítreka það og tek undir að við munum ræða þessa tillögu vonandi á milli 2. og 3. umr. En telur þingmaðurinn ekki mikilvægt að við vöndum þá umræðu? Í núgildandi lögum hefur Matvælastofnun mjög víðtæk úrræði til sviptingu greiðslna, til stjórnvaldssekta og til stjórnvaldsákvarðana sem eru í raun og veru mjög fullnægjandi til þess að taka á slíkum brotum eða slíkum málum. Til viðbótar þá eru einungis örfáar búgreinar sem hafa slíkan stuðning. Spurningin er líka hvort þá gæti ekki einhvers misræmis á milli búgreina ef hægt er að svipta eina búgrein slíkum tekjustofni með aðgerðum sem eru reifaðar í tillögunni.