145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ef ég kem strax að því sem hv. þingmaður endaði á varðandi tillögu okkar Vinstri grænna um að hægt verði að svipta framleiðendur ríkisstuðningi ef um er að ræða brot á lögum um velferð dýra, eða dýraníð. Eins og unnið var að málinu varðandi lög um velferð dýra þá kom upp í þeirri umræðu að þetta þyrfti að kallast á við búvörusamninga, það þyrfti að taka þetta upp við endurnýjun þeirra. Þetta er auðvitað ekki alveg eins og hver önnur atvinnugrein heldur er þetta atvinnugrein sem hefur að hluta til stuðning frá ríkinu. Ríkið verður líka að bera ábyrgð á því hvert greiðslurnar fara og hvernig þær eru nýttar og á auðvitað ekki að líða það að þær séu í höndum á einhverjum sem brýtur lög, í þessu tilfelli lög um velferð dýra.

Ég veit mætavel að Matvælastofnun getur beitt stjórnvaldssektum og hefur heimild fyrir aðgerðum sem hún getur beitt í þeim efnum. En ég tel að við eigum að ganga lengra og koma því sterkara að í þessum samningi að við viljum ekki líða dýraníð. Því miður er kannski oft um að ræða andleg veikindi jafnvel og annað sem er í gangi og þarf auðvitað að hjálpa viðkomandi gegnum slíkt. En ég er ekki að tala um í þessu sambandi að það eigi að grípa til þannig aðgerða að það ýti undir að skepnur fái ekki fóður eða eitthvað því um líkt. Ég tel að það eigi auðvitað að gera þetta allt (Forseti hringir.) með sem mannúðlegustum hætti bæði gagnvart viðkomandi rekstraraðila og þeim dýrum sem hann heldur.