145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Frú forseti. Hér er ég komin upp til þess að gera grein fyrir áliti okkar í Bjartri framtíð á þessum búvörusamningum og þeim lögum sem þarf að breyta til þess að þeir samningar sem fóru fram á milli fyrrverandi ráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og bænda — þar er helst að nefna að við leggjum til frávísunartillögu, um að þessum samningum verði vísað frá, og að víðtækt samráð verði haft áður en við förum í að lögfesta einhverjar breytingar á landbúnaðarkerfinu. Það er byrjað á öfugum enda og mér þykir alltortryggilegt að meiri hlutinn vilji fyrst lögfesta nýjan samning með öllu sem honum fylgir en síðan eigi að spyrja álits. Það þykja mér mjög skringileg vinnubrögð.

Frumvarp um breytingar á búvörulögum er lagt fram til að lögfesta breytingar á lögum í kjölfar þess að undirritaðir voru nýir búvörusamningar og búnaðarlagasamningur milli íslenska ríkisins og Bændasamtaka Íslands þann 19. febrúar 2016. Með nýgerðum búvörusamningum er ekki sköpuð sú festa eða fyrirsjáanleiki sem er nauðsynlegt fyrir jafn mikilvæga atvinnugrein. Markmið samninganna eru líka að mörgu leyti óljós því að á sama tíma og talað er um sóknarfæri íslensks landbúnaðar á heimsvísu með aukinni framleiðslu og margbreytilegum afurðum er hert á einokunaraðstöðu markaðsráðandi aðila og niðurgreiðslu útflutnings landbúnaðarafurða haldið áfram. Þetta er gert þrátt fyrir þau teikn á lofti sem við sjáum mjög sýnilega núna, að sauðfjárbændur eru t.d. að fá lækkun til sín, það er verðlækkun til bænda upp á 10–12% vegna þess að það gengur illa að selja út og vegna þess að krónan er að styrkjast. En það á að halda sig við sama fyrirkomulag hér og bæta í. Með þessu er ætlunin að verja miklum fjármunum til ýmissa greina á þessu sviði og festa í sessi fyrirkomulag sem er löngu úr sér gengið, án samráðs við helstu hagsmunaaðila í samfélaginu. Þetta teljum við í Bjartri framtíð með öllu óásættanlegt.

Fimmtíu umsagnir bárust frá ýmsum hagsmunaaðilum. Fyrir liggur að ekki var haft samráð við flesta af þeim stóru hagsmunaaðilum sem búvörulög og búvörusamningar varða. Í fjölmörgum umsögnum er lýst verulegum áhyggjum af samráðsleysi og íhaldssamri landbúnaðarstefnu sem er fyrir löngu úr sér gengin og þar sem er ekki er gætt að hagsmunum neytenda, skattgreiðenda, launþega, atvinnurekenda og annarra hagsmunaaðila. 3. minni hluti telur að endurnýja beri núgildandi samninga og vinna málið upp á nýtt. Samráði á ekki að slá á frest. Það þarf að gerast fyrir lögfestingu. Lagði 3. minni hluti því fram frávísunartillögu og leggur til að núverandi samningur verði framlengdur og að þegar verði hafist handa við gerð nýrra samninga í samráði og samvinnu við allra hagsmunaaðila og skýrri pólitískri sýn um framtíð íslensks landbúnaðar.

Þá ætla ég aðeins að fjalla um verðlagsnefndina því að hún er enn þá við lýði. Ég ætla að fara í gegnum hvernig þar hefur verið að málum staðið. Launþegasamtökin sem samkvæmt lögum áttu aðild að verðlagsnefnd búvara sögðu sig frá þeim störfum um mitt ár 2015 en Neytendasamtökin höfðu þá þegar sagt sig frá nefndinni. Forsendur þess voru þær að í ljósi breyttra viðhorfa og aðstæðna, m.a. vegna þess að eftirspurn eftir mjólkurvörum hefur verið meiri en rúmast innan samþykkts mjólkurkvóta og að kúabændur hafa lýst vilja til að hverfa frá opinberri verðlagningu á mjólkurafurðum, væri ljóst að endurskoða þyrfti allt skipulag mjólkurframleiðslu, þar með talda verðlagningu. Þessu hnykkjum við á og viljum halda til haga því að í nýju búvörusamningunum er lagt til að halda sig enn þá við það gamla form að hafa verðlagsnefnd t.d. í mjólkurframleiðslu.

Samkeppniseftirlitið tekur svo djúpt í árinni að halda fram í umsögn sinni að frumvarpið þarfnist gagngerrar endurskoðunar í því skyni að tryggja almannahagsmuni. Þetta eru auðvitað dálítið þung og mikil orð og við verðum að átta okkur á því hvað þau þýða. Samkeppniseftirlitið segir að þessir landbúnaðarsamningar tryggi ekki almannahagsmuni. Með öðrum orðum: Þetta eru samningar um sérhagsmuni. Það getur Björt framtíð alls ekki stutt. Þess vegna viljum við vísa málinu frá. Í þessu felst m.a. að í frumvarpinu er að finna ákvæði sem ganga þvert gegn ákvæðum samkeppnislaga, ákvæði sem eru án fordæma í annarri löggjöf og refsiverð undir öðrum kringumstæðum. Er þar m.a. átt við 3. mgr. 13. gr. og 71. gr. núgildandi laga þar sem kveðið er á um samráð og samkomulag milli afurðastöðva og breytingar á áðurnefndri 13. gr. sem festir í sessi samráð um verðtilfærslu sem alla jafna teldist ólöglegt samkvæmt samkeppnislögum. Meiri hluti nefndarinnar leggur ekki til neinar lagfæringar eða breytingar hvað þetta varðar til hagsbóta fyrir almenning.

Björt framtíð telur ekki ásættanlegt að Alþingi samþykki frumvarpið í þeirri mynd sem nú er. Markmið samkeppnislaga er að gæta hagsmuna almennings. Lögunum er ætlað að vinna gegn óhóflegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri, vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum og auðvelda aðgang nýrra keppinauta á markað. Með frumvarpinu er gengið gegn öllum þessum meginreglum þar sem heimildir til sameiningar, samráðs og samvinnu markaðsráðandi aðila yrðu lögfest sem og verðsamráð. Þá er þak einnig sett á það magn sem markaðsráðandi afurðastöð er heimilt að selja sjálfstæðum vinnsluaðilum og þannig komið í veg fyrir samkeppni. Jafnvel þó að breytingartillögur meiri hlutans miði að því að hækka það þak frá því sem áður var í fyrstu tillögum að þessu frumvarpi eru samt sem áður með því lögfestar reglur sem heimila skaðlega fákeppni og samþjöppun á þessum markaði. Slíkt er auðvitað óásættanlegt. Landbúnaður þarf að geta og á að þrífast á samkeppnismarkaði. Atvinnugrein sem er niðurgreidd með almannafé verður að gangast undir samvinnu og samráð við hagsmunaaðila og byggjast á samfélagslegum sjónarmiðum þar sem tekið er tillit til allra hagsmunaaðila.

Björt framtíð telur að með endurskoðun málsins og gerð nýrra búvörusamninga séu fólgin tækifæri til að tryggja bændum hámarksverð fyrir afurðir sínar, að vöruúrval og hagstætt verð til neytenda verði tryggt og að sátt megi nást um slíka samninga og framkvæmd þeirra þannig að ákvæðum samkeppnislaga sé einnig fylgt. Nýlegar fregnir af einhliða ákvörðun sláturleyfishafa um að lækka verð til sauðfjárbænda um 10–12% hafa sætt furðu og hafa bændur gagnrýnt harkalega ásetning þeirra, þ.e. sláturleyfishafa, við að velta fortíðarvanda og kostnaðar- og launahækkunum yfir á bændur. 3. minni hluti atvinnuveganefndar telur að með endurskoðun búvörusamninga megi gera mun betur þannig að hagsmuna allra hlutaðeigandi sé gætt við framkvæmd, og ekki síst bænda.

Þá ætla ég aðeins að bregðast við því sem fram hefur komið í ræðum þeirra hv. þingmanna sem á undan mér töluðu. Í þessu sambandi var verið að ræða stuðning við sauðfjárbændur, eins og ég hef verið að gera. Hv. þm. Kristján L. Möller ræddi mikið um svæðisbundinn stuðning við sauðfjárbændur sem ætlunin er að Byggðastofnun komi með útfærslur að með það að markmiði að koma til móts við hinar veikustu byggðir og veita þeim aukinn stuðning. Hugmyndirnar eru á þá leið að því lengra sem menn eru frá kaupstað, þeim mun meiri stuðning fái þeir. Rökstuðningurinn fyrir því, sem mér þykir allrar athygli verður, er að af því að menn eiga heima svo langt frá kaupstað er erfitt fyrir þá að sækja aðra vinnu, þess vegna þurfa þeir meiri stuðning. Þetta getur allt passað. Ég mótmæli því ekki neitt. En mér þykir mjög eftirtektarvert og vil vekja athygli á því að við séum að búa til umgjörð og taka því sem gefnum hlut að sauðfjárbændur þurfi að sinna annarri vinnu til þess að ná endum saman. Ég kem af sauðfjárbúi. Það var ekkert stórt sauðfjárbú. Þar voru á þeim tíma eitthvað um 350 kindur. Það var ekki 10% vinna að sjá um það. En auðvitað var það þannig að foreldrar mínir gátu ekki verið með þann búrekstur einan og sér, fólk þarf að vinna við annað. Mér finnst að við þurfum aðeins að staldra við. Ég tel að við þurfum að styðja landbúnað í landinu, höfum það alveg á hreinu. En það er ekki sama hvernig það er gert. Ef forsendurnar eru þannig að sauðfjárbændur þurfi alltaf að vera að vinna við eitthvað annað til að ná endum saman, erum við þá ekki á rangri braut? Þurfum við ekki að skoða það aðeins betur? Þetta er ekki ásættanlegt fyrir fólk. Þetta er eins og námsmenn sem verða að vinna með námi. Auðvitað gerir fólk það en best væri að það gæti eytt öllum sínum tíma og kröftum í að sinna náminu. Og best væri að sauðfjárbændur hefðu nægilega mikið upp úr því að reka sauðfjárbú sín og þyrftu ekki að vera að þeytast á milli til að reyna að ná endum saman. Ég vildi koma þessu að vegna þess að því er tekið sem gefnum hlut.

Þá aðeins að lífrænt ræktuðum vörum. Eftirspurn eftir lífrænt ræktuðum vörum hefur margfaldast á undanförnum árum. Frumvarpið felur vissulega í sér aukinn stuðning við lífræna ræktun en hvatinn til slíkrar ræktunar er alls ekki fullnægjandi. Engin stefna um framtíðaráform lífrænnar ræktunar hefur verið sett og er það miður. Marka þarf slíka stefnu og stuðningur við lífræna ræktun þarf að margfaldast til að okkur auðnist að halda í við aðrar Norðurlandaþjóðir hvað þetta varðar.

Með frumvarpinu er ekki með nokkrum hætti gerð tilraun til að leggja mat á það að hvaða marki íslensk framleiðsla er umhverfisvæn í samanburði við sambærilega framleiðslu erlendis. Það er talað mikið um þetta en ekki lögð nein mælistika á það hér. Til þessa þarf að taka upp mælingar á kolefnisfótsporum til að unnt sé að leggja mat á það hvort og þá með hvaða hætti stuðningur við íslenskan landbúnað ýtir undir umhverfisvæna framleiðslu.

Frumvarpið felur í sér áframhaldandi stuðning við útflutning landbúnaðarafurða sem er niðurgreiddur með almannafé íslenskra skattborgara í formi beingreiðslna eða gripagreiðslna. Nú á sem sagt að auka á gripagreiðslur. Eins og fram hefur komið þarf atvinnugrein sem niðurgreidd er með almannafé að byggjast á samfélagslegum sjónarmiðum og hagrænum ávinningi. Óásættanlegt er að íslenskir skattgreiðendur niðurgreiði landbúnaðarafurðir sem seldar eru erlendis. Til þess að byggja upp markaði erlendis með íslenskum landbúnaðarafurðum hlýtur atvinnugreinin að þurfa að standa á eigin fótum.

Ég tel einfaldlega að við séum á rangri braut þarna. Við segjum við sauðfjárbændur og þessi samningur segir: Við aukum gripagreiðslur, þið megið framleiða meira svo við getum selt meira út. En hver er veruleikinn? Það gengur ekki vel að selja út. Afurðaverð lækkar til bænda sem halda áfram að framleiða meira þannig að afurðaverð lækkar áfram. Þetta er mjög einfalt, einfaldasta útgáfan af hagfræðiformúlu sem til er. Ég átta mig ekki á því hvaða hagfræðibækur stjórnarmeirihlutinn hefur lesið.

Í frumvarpinu er ekki tekið tillit til ástands lands og stuðningur er mikill á svæðum þar sem landgæði geta verið slök. Þess utan getur aukning gripagreiðslna hvatt til fjölgunar sauðfjár án þess að hugað sé að ástandi afrétta og beitilanda í héruðum og landshlutum þar sem ástand lands getur verið viðkvæmt. Ekki verður séð að með samningunum sé gerð tilraun til að draga úr beit á illa förnu landi eða auðnum. Meiri hluti atvinnuveganefndar vitnar til rammasamnings um almenn starfsskilyrði landbúnaðarins hvað þetta varðar og segir gert ráð fyrir mati og vöktun á ástandi gróðurauðlinda. Hið rétta er að þar er eingöngu rætt um að standa fyrir verkefni um mat á gróðurauðlindum með því að draga saman rannsóknir sem fyrir liggja um efnið og beita sér fyrir frekari rannsóknum. Engin tilraun er gerð til að skýra það með hvaða hætti ætlunin er að vakta og vernda land og stuðla að sjálfbærni. Opinber fjárstuðningur við heila atvinnugrein hlýtur að þurfa að miðast við sjálfbæra landnýtingu þar sem gróður- og jarðvegseyðing er eitt alvarlegasta umhverfisvandamál Íslendinga. Björt framtíð vill stórauka áherslu á jarðræktarstuðning, ekki síst til að fylgja sóknaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og skuldbindingum á alþjóðavettvangi. Þannig þarf að auka fjölbreytni í íslenskum landbúnaði í stað þess að einblína á sértækar búgreinar eins og gert er í samningunum. Með öðrum orðum: Við skulum styrkja fólk til að gera það sem það vill í landbúnaði. Mér finnst þessir fjórir samningar ekki ná utan um þetta — jú, það er kominn þarna rammasamningur sem tilgreinir geitur og eitthvað svoleiðis, en hvernig eigum við hér og fólk í ráðuneytinu, með fullri virðingu, að hafa tæmandi hugmyndir um það hvað bændur vilja gera?

Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að opinber stuðningur við framleiðslu landbúnaðarafurða komi til endurskoðunar verði bændur uppvísir að ítrekaðri illri meðferð dýra. Í frumvarpi um meðferð dýra sem lagt var fram á 141. löggjafarþingi var gert ráð fyrir því að við brot á lögunum væri Matvælastofnun, sem hefur eftirlitshlutverk með dýrahaldi, heimilt að fella niður opinberar greiðslur í landbúnaði vegna ítrekaðra brota og að undangenginni áminningu. Það ákvæði var fellt út úr lögum, m.a. vegna andstöðu Bændasamtaka Íslands við ákvæðið. Helstu rök voru þau að slík tillaga stangaðist á við búvöru- og búnaðarlög. 3. minni hluti telur slík rök ekki standa í vegi fyrir því að ákvæði af þessu tagi verði tekið upp, enda þurfi þá eingöngu að taka það upp í öðrum lögum. Sjálfsagt og eðlilegt sé að skilyrða opinberan fjárstuðning við ásættanlega meðferð dýra.

Þrátt fyrir að meiri hluti atvinnuveganefndar geri ráð fyrir lítils háttar breytingum á fyrirkomulagi tollkvóta sem hafa það að markmiði að hækkanir verði ekki eins miklar og áður hafði verið gert ráð fyrir, ef ég man rétt hafði verið gert ráð fyrir um 150% hækkun en nú er gert ráð fyrir 70% hækkun, þá munu þessar breytingar á búvörulögum samt sem áður leiða til tollahækkunar á ostum. 3. minni hluti telur að hagsmunir neytenda séu enn fyrir borð bornir og slíkt er óásættanlegt. Björt framtíð hefur lagt fram frumvarp þess efnis að tollkvótar verði ekki boðnir út, enda fari kostnaður vegna útboðanna út í verðlagið, eins og við sjáum alltaf gerast.

Þriðji minni hluti telur fram komnar breytingar meiri hluta nefndarinnar sumar til bóta og tekur undir tillögu sem varða það að brýnt sé að neytendur fái skýrar og réttar upplýsingar um uppruna þeirra matvæla sem þeim eru boðin til sölu og að framfylgja þurfi af einurð banni við því að villt sé um fyrir neytendum með röngum eða óskýrum merkingum og auglýsingum. Afar mikilvægt sé að hraða innleiðingu á reglugerð um upprunamerkingar nr. 1337/2013, um reglur vegna beitingar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 1169/2011. Ánægjulegt er að tekið skuli undir margar röksemdir í frávísunartillögu Bjartrar framtíðar og hún sé höfð til hliðsjónar í fjölmörgum umsögnum hagsmunaaðila, sem eru samt neikvæðar.

Álit 3. minni hluta er að breytingartillögur meiri hlutans séu algjörlega ófullnægjandi og því beri að vísa málinu frá. Málið er enn vanreifað og mikið vantar upp á gæði þess sem ekki verður bætt nema með heildarendurskoðun og víðtæku samráði. Björt framtíð hefur ítrekað kallað eftir slíku samráði og það áður en búvörusamningar fóru af stað árið 2014, ef ekki fyrr, og nú virðast fleiri komnir á þá skoðun og það er vel. Íslenskur landbúnaður og fjölbreytt framleiðsla þar undir getur ekki beðið í þrjú ár eftir heildarendurskoðun þeirri sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur til, enda er ekkert í tillögum meiri hlutans sem tryggir góða niðurstöðu og bætt umhverfi neytenda, bænda og annarra framleiðenda að þeim tíma liðnum.

Ég ætla að nota smátíma til að fara yfir frávísunartillöguna. Hún er í 13 liðum hjá okkur og tekur til þeirra atriða sem ég var að fjalla um. Ég ætla að fara hratt yfir og lesa hana upp, með leyfi forseta.

„Þar sem fram hefur komið að:

a. búvörusamningarnir, sem undirritaðir hafa verið með fyrirvara, eru mjög umdeildir bæði innan þings sem utan, sem og þær breytingar á búvörulögum sem lagðar eru til svo unnt sé að uppfylla samningana, verður ekki annað séð en leggja þurfi til umtalsverðar breytingar á frumvarpinu og því séu forsendur samninganna brostnar,

b. við gerð búvörusamninga var ekki haft samráð við mikilvæga hagsmunaaðila, svo sem fulltrúa neytenda, launþega, verslunar og þjónustu, atvinnurekenda og ýmissa stofnana ríkisins, svo sem Landgræðslunnar og samkeppnisyfirvalda,

c. í umsögnum um frumvarpið kemur fram mikil andstaða við svo mikla langtímaskuldbindingu ríkisins og slík tíu ára skuldbinding verður að byggjast á meiri sátt en ríkir um þá samninga sem fyrir liggja enda um verulegar upphæðir að ræða,

d. ekki er gert ráð fyrir að undanþága frá samkeppnislögum, sem heimilar mjólkurafurðastöðvum að renna saman án íhlutunar samkeppnisyfirvalda, verði afnumin en slík undanþága vinnur gegn hagsmunum neytenda og þeirra sem vilja hasla sér völl í greininni,

e. ekki er gert ráð fyrir að afnema undanþágur frá samkeppnislögum um verðsamráð mjólkurafurðastöðva en samráð af því tagi er alla jafna mjög skaðlegt neytendum og engin rök fyrir því að heimila slíkt í þessum geira einum,

f. í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að afurðastöðvum verði óheimilt að selja öðrum vinnsluaðilum meira en 5% af þeirri mjólk sem þær taka við en með því er vegið að samkeppni á þessum markaði og einokunarstaða núverandi markaðsráðandi aðila styrkt,“ — meiri hluti atvinnuveganefndar ætlar að breyta þessu í 20%, að ég held.

„g. hlutverk og ábyrgð verðlagningarnefndar er ekki nógu skýrt og fyrirkomulagið er ekki til þess fallið að skapa hvata fyrir framleiðendur til að auka samkeppnishæfni og framleiðni og lækka vöruverð til neytenda,“ — varðandi þennan lið vísa ég í það sem ég sagði áðan um að kúabændur sjálfir hafa lýst vilja til þess að hverfa frá þessu fyrirkomulagi. Af hverju hlustum við ekki á það?

„h. í frumvarpinu er lögð til mikil hækkun á magntollum á innfluttum ostum og mjólkurdufti en slíkar aðgerðir hækka verð til neytenda, veikja íslenskan iðnað og stuðla að lakara vöruúrvali,

i. samspil 11. gr. samkeppnislaga og ákvæða í búvörulögum er á margan hátt óljóst, svo sem hvað varðar skyldur markaðsráðandi fyrirtækis, viðurlög við brotum markaðsráðandi afurðastöðvar, sameiningu afurðastöðva og annað samstarf,

j. hvatning til lífrænnar framleiðslu er ekki fullnægjandi með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu,“ — við teljum þetta vera allt of lítið skref sem þarna er stigið í þessu frumvarpi hvað þetta varðar.

„k. ekki er gert ráð fyrir því að ríkisstuðningur geti skerst eða fallið niður við alvarleg brot á lögum um velferð dýra þótt atvinnuveganefnd hafi við síðustu meðferð frumvarps til breytinga á búvörulögum hvatt til þess að skoðað yrði við endurskoðun búvörulaga að fella slíkt úrræði inn í lögin,

l. í þeim samningum sem liggja fyrir er ekki tekið fullt tillit til ástands lands og stuðningur er t.d. mikill á svæðum þar sem landgæði geta verið slök, auk þess sem hærra hlutfall styrkja til greinarinnar fer í gegnum gripagreiðslur en sú leið hefur virkað framleiðsluhvetjandi og er ekki til þess fallin að verja viðkvæmt land,

m. auka þarf fjölbreytni í íslenskum landbúnaði í stað þess að einblína á sértækar búgreinar eins og gert er í samningnum og stórauka þyrfti áherslu á jarðræktarstuðning,

er lagt til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og henni verði falið að framlengja gildandi samninga.“

Við erum ekki að segja að gildandi samningur sé góður. Við erum að segja: Það þarf að spyrja fólk fyrst áður en við á Alþingi komum með lög um hitt og þetta. Það er lágmarkskrafa. Það er satt að segja algert gerræði að við séum ekki búin að gera það. Við erum að ræða um 13 milljarða á ári og þetta er bara gert á einhverri skrifstofu uppi í ráðuneyti. Og svo er komið núna og sagt: Það er rétt hjá ykkur, við hefðum kannski átt að spyrja einhvern álits. Við skulum gera það á eftir þegar við erum búin að samþykkja þetta.

Hvar annars staðar en á Alþingi væri svona málflutningur í lagi?

Nú er ég búin að fara í gegnum þessa frávísunartillögu og ég er búin að færa fyrir henni góð rök. Ég tel að við séum rétt að byrja að sjá hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir komandi framtíð að hleypa þessu svona í gegn. Þá er ég að tala um sjálfbærni landsins okkar og landnýtingu. Ég er að tala um hag bænda sem ég ber mjög fyrir brjósti og vil sjá meiri. Ég tel ekki að þessi samningur hugi að hag bænda á nægilegan hátt. Ég tel allar hugmyndir um hvernig megi bæta hag bænda í þessum samningi vera úreltar og gamaldags og hafa sýnt sig margoft að gangi ekki upp.

Við erum rétt að byrja að sjá hvaða áhrif þessi nýi samningur mun hafa fyrir neytendur. Við erum að tala um að tollar munu hækka á ostum. Jú, það má henda í fólk einhverjum vörubrettum af parmesan og mozzarella, en hvað? Ætlar Alþingi að fara að velja úr hvaða sérosta við ætlum að flytja hingað inn og passa upp á að það séu örugglega ekki þeir sem eru framleiddir á Íslandi? Af hverju er frjáls samkeppni og val ekki í boði í þessum búvörusamningum? Af hverju er það ekki í boði? Ég er stolt af íslenskum landbúnaði og er þess fullviss að hann getur fyllilega staðist kröfur á ýmsum sviðum jafnt á við þann erlenda. En fólk verður að hafa val um hvað það fær að kaupa. Hvers lags eiginlega forræðishyggja er þetta? Ég veit að það verða margir þingmenn hér sem munu halda áfram að kaupa lambakjötið sitt og meginþorri Íslendinga mun halda því áfram af því að það er góð afurð. (Gripið fram í.) Við eigum að treysta bændum. Meðvitund þeirra um gæði í framleiðslu sinni hefur stóraukist, það er verið að markaðssetja lambakjöt sem t.d. fjallalömb og hvað það heitir. Við veljum þetta. Leyfið okkur að gera það og leyfið okkur líka að velja það sem kemur erlendis frá án þess að stýra því með tollum og einhverri frekju.