145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:04]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst í ræðu hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur gæta ýmissa missagna eða mótsagna. Í upphafi ræðunnar mátti skilja það svo að bændur og landbúnaður ættu bara að standa sig í frjálsri samkeppni, standa á eigin fótum. Svo heyrði ég síðar í ræðunni að hún væri nú ekki á móti stuðningi við bændur, bara ekki þessa útfærslu. Þá vil ég vita: Hvaða útfærslu er þingmaðurinn að tala um? Nú sér maður alls staðar annars staðar stuðning til bænda. Hann er með tvennum hætti: Með niðurgreiðslu og tollvernd. Ég gat ekki skilið þingmanninn öðruvísi en svo að öll þessi tollvernd væri gamaldags og vitlaus. Hér mættu bara allir flytja inn tollfrjálsa osta og hvaðeina frá löndum þar sem þessi sami landbúnaður er styrktur með tollvernd og niðurgreiðslum. Hvers lags samkeppni er það? Það er auðvitað ekki eðlileg samkeppni.

En auðvitað er ekki sjálfgefið að stuðningurinn við landbúnaðinn skuli endilega vera nákvæmlega í því formi sem núverandi samningar segja til um. Það má vissulega ræða það. Eru til skynsamlegri útfærslur? Er eitthvað til betra? En það er alveg ljóst að stuðningur við landbúnað, sem er mikilvæg atvinnugrein, er nauðsynlegur til að hér verði framleitt áfram það góða kjöt sem við erum að niðurgreiða með þessum samningi til neytenda til að gera þeim kleift að kaupa það. Skiptir það ekki máli? Snýst þetta ekki um það? Við erum að styðja alls konar atvinnugreinar með skattaívilnunum. Við gerðum það við kvikmyndaiðnaðinn síðast, við gerum það við listir og menningu, mikill peningur fer í niðurgreiðslur. Vegna þess að við teljum að þjóðhagslegir hagsmunir skipti máli í því. Almannahagsmunir eru undir í þessum stuðningi, alveg jafnt við landbúnað eins og aðrar atvinnugreinar sem við erum að styðja. (Forseti hringir.) Og þetta er ekki orðið nema 1% af landsframleiðslu eins og er víðast hvar annars staðar í Evrópusambandinu. Það er nú ekki meira en það.