145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að ég hef ekki orðið var við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessum sal, hvorki núverandi né fyrrverandi. Jafnvel nefndarmenn í atvinnuveganefnd hefðu mátt sinna umræðunni betur.

Framsögumaður 2. minni hluta atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, hefur gert vel grein fyrir okkar afstöðu og ég vísa til þess almennt talað og þeirra hluta sem ég kem ekki inn á í mínu máli eða hef tíma til að gera. En nokkur atriði vil ég leggja í púkkið. Í fyrsta lagi er óhjákvæmilegt að rifja upp að það sætti nokkurri gagnrýni hvernig hæstv. ríkisstjórn stóð að gerð þessa samnings. Samráðið var ekki mikið og þetta lokaðist af í tiltölulega þröngum hóp að mestu leyti flokksbræðra í Framsóknarflokknum. Þar bera bændur auðvitað nokkra sök líka. Þeir hefðu getað haft breiðari sveit af sinni hálfu sem hefði betur tengt og valdað samningana pólitískt og faglega.

Það er líka gagnrýnisvert hversu seint verkið gekk hjá ríkisstjórninni. Hún gaufaðist við þetta og er í raun og veru fyrst að skila þessum samningum til þingsins í vor og haust þegar sumir þeirra voru í raun útrunnir, aðrir í þann veginn að renna út og eitt ár eftir af sauðfjársamningnum. Það er ekki gott verklag að draga það svo lengi að endurnýja og skýra inn í framtíðina starfsskilyrði landbúnaðarins þannig að einhver lágmarksfyrirsjáanleiki sé til staðar. Eins og hv. þingmenn þekkja sjálfsagt er framleiðslukeðjan löng og nokkur aðdragandi að því að menn fari að mjólka kýr eða senda lömb í sláturhús. Það gerist ekki bara með því að smella fingri. Það er mjög mikilvægt í þessari grein eins og víða á við að einhver fyrirsjáanleiki sé til staðar varðandi meginstarfsskilyrði.

Samningarnir, eða drögin að þeim sem fóru að kvisast út á haustmánuðum, sættu mikilli gagnrýni og leiddu til breytinga. Þannig gerðu kúabændur, eða að minnsta kosti hluti þeirra, nánast uppreisn gegn því sem þeim var ætlað í upphaflegum samningsdrögum og höfðu erindi sem erfiði því að þeir fengu inn hreint endurskoðunarákvæði 2019. Þeir geta kosið þá um hvort þeir vilji halda áfram niður þá götu sem tíu ára ramminn markar eða látið þar staðar numið, og sæta litlum breytingum fram að því. Það undarlega var að sauðfjárræktarhluti samningsins tók ekki sambærilegum breytingum. Var óánægjan þó mjög megn víða meðal sauðfjárbænda þegar þeir fóru að sjá á afurðirnar.

Því eru breytingartillögur atvinnuveganefndar að því leyti fagnaðarefni að sauðfjárbændur og garðyrkjubændur og út af fyrir sig allur samningurinn sætir núna hreinni endurskoðun 2019 og það er vel.

Sérstaklega voru það bændur á aðalsauðfjárræktarsvæðum landsins sem urðu uggandi þegar þeir sáu framan í tillögurnar. Það hlýtur að vera mönnum nokkurt umhugsunarefni að andstaðan var mest á þeim svæðum í landinu þar sem menn eru háðastir sauðfjárrækt og þar sem hún er helst heils árs atvinnugrein og stendur undir tekjum fjölskyldna; í Strandasýslu, Dölum, á norðausturhorninu, Skaftafellssýslum, Húnavatnssýslum og víðar. Enda kom í ljós þegar bændur sjálfir höfðu fyrir því að láta reikna út hvernig þeirra hlutur yrði, sauðfjárbændur í þessum héruðum, fyrst Strandamenn og síðan Norður-Þingeyingar, að á þessum tíu ára samningstíma, ef allt gengi eftir óbreytt, mundu svæðin tapa 19% af sínum stuðningi, aðalsauðfjárræktarsvæðin í landinu. Það er vegna innbyggðs vatnshalla eða hagræðingarkröfu. Það er vegna þess að svonefnd 70% regla fellur út. Og það er vegna þess að augljóslega flyst eitthvað af framleiðslu annað þegar kerfið er opnað og hver sem er getur farið að framleiða og sótt sér þannig hlutdeild í gripagreiðslum og stuðningi á hvert framleitt kíló. Það þynnir hlut hinna og getur ekki, eðli málsins samkvæmt, orðið annað en á kostnað aðalsauðfjárræktarsvæðanna. Útkoman er þessi. Nokkurn veginn sambærileg niðurstaða kom út úr óháðri athugun á þessu í Strandasýslu og Norður-Þingeyjarsýslu, að stuðningurinn mundi minnka um ein 19% yfir samningstímann. Var þetta meiningin? Að draga sérstaklega úr stuðningnum við þau svæði sem þó byggja helst á sauðfjárrækt enn í dag? Og vel að merkja: Þetta eru svæði þar sem ástand beitarlands er almennt gott og ekki endilega gáfulegt að reikna með því að framleiðslan aukist á öðrum svæðum.

Það er t.d. alveg ljóst að þessir samningar eru alger kúvending frá núgildandi fyrirkomulagi hvað sauðfjárræktina varðar. Þeir eru framleiðsluhvetjandi. Ef menn færa allan stuðninginn yfir í annars vegar greiðslur á hvern ásettan grip og hins vegar greiðslur á hvert innlagt kíló af kindakjöti þá er auðvitað freistandi að auka magnið. Setja á fleira fé og senda meira í sláturhús og fá stærri hluta af pottinum. Þetta eru ólympískar veiðar eða ólympísk keppni um tiltekið fjármagn. En í núgildandi samningi er t.d. nefnd 70% regla sem verkar frekar bremsandi á framleiðslu en hitt. Hún er þannig að það nægir að setja 70% af fullu greiðslumarki viðkomandi býlis á en maður heldur óskertum beingreiðslum, svo lengi sem maður er með a.m.k. 70% af ásettum bústofnum. Þetta getur hentað mörgum eldri bændum vel eða öðrum sem af einhverjum ástæðum rifa heldur seglin tímabundið. Framleiðslan minnkar en tekjurnar haldast. Að mínu mati er þetta regla sem hefur verkað mjög vel í þessu kerfi. Hún getur meðal annars brúað bilið meðan beðið er eftir kynslóðaskiptum á býlum o.s.frv. Er skynsamlegt að færa allan stuðninginn yfir í framleiðsluhvetjandi stuðning? Hvaðan kom mönnum sú speki? Ég staldra mjög við það.

Hér voru menn að ræða kjör bænda. Flestir, í orði kveðnu a.m.k., segjast finna til með bændum og þá kannski ekki síst sauðfjárbændum, að þeirra kjör séu nú ekki beysin sem er rétt, því miður, þó að auðvitað sé þar mismunur innan hópsins eins og annars staðar. Hvað er að gerast í haust? Er ekki verið að boða um 10% lækkun á afurðaverði til bænda frá afurðastöðvunum? Er þá akkúrat rétti tíminn að leggja af stað í að draga úr hinum tekjustofninum, beingreiðslunum? Hvað ætli það sé nú sem sauðfjárbændur sjá í formi peninga mest allt árið annað en beingreiðslurnar, mánaðarlegar inn á reikning? Þeir leggja inn einu sinni á ári og fá uppgjör í einhverjum slöttum og oftast er þegar áfallinn kostnaður vegna framleiðslunnar búinn að klára það. Það er nú bara þannig að það eru beingreiðslurnar sem hafa fyrst og fremst tryggt mönnum lágmarksafkomu. Og ég er mjög hugsi yfir því að menn skuli telja það sérstakt framfaraspor að kippa þeim í burtu. Ég er það.

Annað hef ég staldrað mikið við í þessum samningum sem vissulega er ekki alveg nýtt að gerast núna. Það er að með þeim er ætlunin, gangi þetta tíu ára ferðalag eftir, að sökkva alveg allri tengingu hins opinbera stuðnings við framleiðslu í þágu innlends markaðar. 1991 var landbúnaðarkerfið á Íslandi gjaldþrota. Þá voru milljarða skuldir á útflutningsuppbótaliðnum og það voru hundruð milljóna skuldir á jarðarbótastyrkjum o.s.frv. Það var enginn pólitískur vilji eftir í landinu til þess að halda því fyrirkomulagi að reiða fram gríðarlega fjármuni úr ríkissjóði til þess að niðurgreiða framleiðslu ofan í útlendinga. Það kerfi var slegið af á einu bretti, útflutningsuppbætur lagðar af og niðurstaðan var: Beinum öllum stuðningi ríkisins til framleiðslu í þágu innanlandsmarkaðar. Ef menn vilja svo þar til viðbótar spreyta sig við útflutning gera þeir það á sína ábyrgð, bændur og afurðastöðvar. Þetta hélt lengi framan af. Það var með fullum rökum og réttu hægt að benda á að hver einasta króna frá ríkinu fór í að bæta kjör bænda og lækka verð til neytenda. Beingreiðslur tóku við af niðurgreiðslum á smásölustigi. Ég tel að þetta fyrirkomulag hafi í grunninn gefist vel og íslenskur landbúnaður væri svipur hjá sjón ef menn hefðu ekki farið í þessar grundvallarbreytingar, sem vissulega voru erfiðar og sársaukafullar og m.a. tóku framleiðsluna í sauðfjárrækt niður, ásett fé var yfir 900 þúsund í landinu en fór niður fyrir 500 þúsund. Framleiðslan aðlagaði sig í miklu nánara samhengi að innanlandsmarkaði. Og stuðningurinn tengdist honum. Svo fór þetta vissulega að leka með afnámi útflutningsskyldunnar eða kvaðarinnar í sauðfjárræktinni og á vissan hátt líka þegar mjólkuriðnaðurinn fór að borga fullt verð fyrir alla mjólk óháð því hvort hún væri innan greiðslumarks eða ekki.

En það þýðir ekki að rétt sé að halda áfram þessa leið. Ég hef spurt: Hver ætlar að svara eftir tíu ár þegar beðið verður um upplýsingar um það hvað mikið af ríkisstuðningnum fer í framleiðslu sem er borðuð í útlöndum? Er það þriðjungur, eru það 40%? Hver ætlar að verja það kerfi? Ég er ekki viss um að menn átti sig á því hvað þeir eru að gera hér. Samningarnir 1991 voru gerðir í breiðri sátt í kjölfar þjóðarsáttarinnar og studdir af aðilum vinnumarkaðarins og það skapaðist miklu betra andrúmsloft árin á eftir í þessum samskiptum sem því miður hefur að einhverju leyti glatast núna.

Ég bið menn að hugsa sig mjög vel um áður en þeir leggja inn á þessa braut eða ganga þá götu til enda. Þeir ættu að a.m.k. að fara á smánámskeið hjá mér og Hauki Halldórssyni um það hvernig ástandi í landbúnaðarkerfinu var fyrir 1991.

Við í Vinstri grænum söknum miklu nánari og sterkari tengingar samninganna við umhverfismálin. Eiginlega skil ég ekki hvers vegna í ósköpunum menn gripu ekki það upplagða tækifæri sem hér var að landbúnaðurinn og stjórnvöld tækju höndum saman og segðu: Já, við ætlum, m.a. í gegnum þessi samskipti okkar og þessa samninga, að taka á saman hvað það varðar að mæta markmiðum Íslands og skuldbindingum í loftslagsmálum. Landbúnaðurinn getur leikið þar mikilvægt hlutverk. Honum er í sjálfu sér ætlað það. En það er eins og menn hafi lítið vitað af því þegar þeir voru að klára þessa samninga. Jú, menn geta sagt að það verði gert til hliðar í skógræktaráætlunum og landgræðsluáætlunum og einhverju slíku en auðvitað ætti að gera það hér. Það ætti að flétta inn í þetta samstarf ríkis og landbúnaðarins metnaðarfull áform um að stuðla að orkuskiptum í landbúnaði, endurheimta votlendi, planta skógum á bújörðum, fara í landgræðslu o.s.frv. Það væri langeðlilegast að búa um það í þessu stóra heildarsamhengi fjárhagslegra og samningsbundinna samskipta ríkis og greinarinnar. En menn hafa misst af því tækifæri sem hefði verið gott fyrir báða aðila. Sjá menn ekki tækifærin fyrir landbúnaðinn að geta stoltir komið og sagt: Við leggjum mikið af mörkum með þessu og þessu í þágu glímunnar við loftslagsbreytingar? Ríkið hefði getað sagt: Við erum í samstarfi við landbúnaðinn að leggja mikið af mörkum í bindingu kolefnis og svo framvegis.

Að sjálfsögðu er ýmislegt gott í þessum samningum. Ég ætla ekki að draga úr því að menn sýna viðleitni á ýmsum sviðum eins og með því að styðja lítillega betur við lífræna ræktun, passa upp á geitastofninn eða hvað það er. Styðja eitthvað við nýliðun með örlítinn svæðisbundinn stuðning á móti til sauðfjárræktarsvæðanna. En það er allt óskaplega veikburða og litlir fjármunir settir í það.

Svo mega menn ekki gleyma því, af því við vorum að tala um kjör bænda, að inn í þennan samning er áfram byggður sérstakur vatnshalli, sérstök skerðing sem safnast upp í hátt í 10%. Það á sem sagt að draga beinlínis úr stuðningnum yfir tíma að raungildi. Menn geta sagt að þeir ætlist til framleiðniaukningar og einhverrar hagræðingar. En hefur nú veitt af að bændur héldu þó a.m.k. þessum stuðningi óskertum til þess að ná kjörum sínum eitthvað upp í áttina að öðrum stéttum í landinu? Eru menn nokkuð að gleyma því að hér á að skerða sérstaklega þennan þáttinn í kjörum stéttarinnar? Auðvitað eru beingreiðslurnar eða ríkisstuðningurinn stór hluti af afkomu bænda, nema hvað, upp undir helmingurinn af brúttótekjum búanna. Ef það er skert þá þrengist auðvitað um, nema menn hafi trú á að afurðastöðvarnar geti stórhækkað afurðaverð á næstu árum. Er það líklegt? Það er ekki í hendi.

Ég vil leyfa mér að nefna, því að ýmsir voru að tala um að þessir samningar væru alveg sérstaklega verðtryggðir: Hvernig eru þeir verðtryggðir? Þeir eru verðtryggðir með neysluverðsvísitölu. Hvað þýðir það? Það þýðir að ef kaupmáttaraukning verður í landinu á næstu tíu árum og launavísitalan hækkar meira en neysluvísitalan þá er ein stétt sérstaklega með það samningsbundið að hún fái ekkert í þeirri kaupmáttaraukningu. Hennar kjör eru að þessu leyti verðtryggð með neysluverðsvísitölu en ekki launavísitölu. Kaupmáttaraukning í landi verður eins og kunnugt er þegar kaupið hækkar meira en verðlagið, þegar launavísitalan hækkar meira en neysluverðsvísitalan. Ég velti fyrir mér: Gerðu menn sér ekki þennan mun ljósan þegar þeir gengu svona frá þessum mikilvæga kjaraþætti þessarar stéttar í landinu? Ég veit það ekki.

Atvinnuveganefnd hefur auðvitað sýnt viðleitni í að laga málið. Það skal tekið undir það. Þar munar að mínu mati mest um þetta hreina endurskoðunarákvæði eftir þrjú ár. Það er mjög mikilvægt. Það er líka mikilvæg og ágætistillaga að nota þá tímann vel í víðtækt samráð um málefni þessarar mikilvægu atvinnugreinar því að hún er það. Hún er mikilvæg af mörgum ástæðum og er miklu stærri í raun og veru en umfang hennar gæti bent til í fljótu bragði. Réttilega hefur verið á minnt á það hér að t.d. hinn opinberi stuðningur við landbúnað á Íslandi er í dag kominn ofan í ótrúlega lágar fjárhæðir borið saman við það sem hann var fyrir ekki mörgum árum síðan þegar upp undir 5% af vergri landsframleiðslu fóru í beinar og óbeinar greiðslur inn í landbúnaðinn. Nú er þetta komið niður í 1% og varla það einu sinni, hálft prósent rúmlega ef við tökum ekki tollverndina með. Þjóðhagslega er þetta því ekki nein óskapleg byrði á mönnum borið saman við það sem áður var. En hvað fáum við í staðinn? Við varðveitum byggð í landinu sem er undirstaða margra annarra hluta en landbúnaðar. Ætli ferðaþjónustan og vöxtur hennar á stórum svæðum í landinu eigi ekki sitt undir því að þar sé fólk? Þar eru bæir. Hvað margir bóndabæir hafa breyst í gistiheimili eða hótel á undanförnum 10–20 árum? Hvernig ætli gengi að finna gistingu á Suðurlandi og í Skaftafellssýslum ef engin ferðaþjónusta bænda væri til staðar? Ég held að maður ætti að hugleiða það.

Og sama á við um fjöldamargt annað afleitt sem tengist því að það er fólk í sveitunum. Þar er byggð og þeir möguleikar og þær auðlindir sem þær eru, eru nýttar. Þetta er hluti af fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar. Við erum að berjast við það með þessu að framleiða sjálf um helming fæðuþarfar þjóðarinnar, náum því varla. Hafa menn engar áhyggjur af því að það hlutfall minnki og við verðum enn þá háðari innflutningi og sviptingum sem honum geta tengst með okkar matvæla- og fæðuöryggi? Ég hefði haldið það.

Hver sér fyrir framtíðarmöguleikana sem glatast ef byggð eyðist í sveitum landsins? Ætlar einhver að gerast sá spámaður að þá séum við ekki að glata neinu? Fyrir utan menningarlega, byggðalega og tilfinningalega þætti sem þar með fara forgörðum? Það tapast nefnilega mjög mikið ef fólk hættir að búa á svæðum og þekkja þar til, kunna söguna, þekkja örnefnin. Geta tekið á móti gestum, sýnt þeim og verið stolt af sínu og sinni arfleifð og sinni menningu. Það er nokkurs virði, finnst mér, að varðveita það Ísland sem þannig er samansett, með borgum og bæjum en líka sveitum. Tölum bara mannamál um þetta. Viljum við þannig Ísland eða eitthvað annað? Mér finnst ansi grunnt oft undir málflutningi manna sem afgreiða bara málin með því að segja: Það er ekkert vandamál, íslenskur landbúnaður er svo ágætur og sterkur að hann mun bara spjara sig í samkeppni. Menn nefna garðyrkjuna sem dæmi. Það er rétt, tollverndin var afnumin af garðyrkju, en hvað kom í staðinn? Á sjötta hundrað milljónir í stuðning við greinina frá ríkinu til að mæta afleiðingunum af því að hún missti tollverndina. Það var í formi beingreiðslna til framleiðslu á papriku, gúrkum og tómötum og í formi lækkunar á flutningskostnaði og raforkuverði. Og það er rétt, á þeim grunni hefur garðyrkjan síðan spjarað sig vel og framleiðir stórkostlegar afurðir og er að færa út kvíarnar, fjölga tegundum o.s.frv. Það er ágætisgróska og ágætisþróun í mörgum greinum íslensks landbúnaðar. Í raun og veru er bara eitt að í landbúnaði á Íslandi og það er að kjör bænda eru ekki nógu góð. Það er auðvitað það sem er erfiðast. Það þarf nánast hugsjónafólk til að fara í landbúnað. Nýliðun er erfið af þeim sökum, ef foreldrarnir eiga ekki bara að gefa börnunum sínum búin til að taka við þeim. Það er staðreynd.

Ég mundi að vísu kannski bæta við öðru sem ég hefði viljað sjá tekið fastari tökum á umliðnum árum og það eru umhverfismálin. Það takmarkaða tæki sem er fólgið í gæðastýringunni sem innbyggð er í núverandi samninga bítur ekki mjög mikið. Það væri æskilegt ef menn gætu smíðað sér reglur og tekið á því að reyna að stýra því hvar framleiðslan færi fram, sérstaklega þar sem notað er beitiland, í betra samræmi við landkostina. Það hefur mikið áunnist, fækkunin ein á sauðfé úr 900 niður í 500 þúsund fjár, það að hrossabeit á afréttum er að mestu leyti aflögð, að vetrarbeit er að mestu leyti aflögð, fóðuröflun miklu öflugri, hefur allt saman stórbreytt þessari stöðu. Með hlýnandi loftslagi þýðir það í viðbót að Ísland er auðvitað að gróa upp í stórum stíl. Það vitum við núna. Og birkið er í framför eiginlega um allt land. En það eru samt því miður ákveðin svæði þar sem þetta er ekki alveg nógu gott. Við gætum gert betur í þeim efnum. Þessi samningur finnst mér ekki nema þá bara ágætisorðalag í nefndaráliti, taka nógu vel utan um það. Þannig að betur hefði mátt takast til.

Atvinnuveganefnd á hrós skilið fyrir sína viðleitni og hún hefur að ýmsu leyti lagað þetta mál. Við munum að sjálfsögðu, eða ég, styðja breytingartillögur hennar sem ég tel vera til bóta, ég held að þær séu það allar. (Forseti hringir.) En í ljósi margs sem ég hef farið hér yfir mun ég með félögum mínum sitja hjá við afgreiðslu málsins, enda verða stjórnarflokkarnir að bera einir ábyrgð á(Forseti hringir.) vinnubrögðunum við gerð þessa samnings og þeirri afurð sem þau vinnubrögð gáfu af sér.