145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir ræðuna og hans ágætu brýningu sem þar kom fram að mörgu leyti eins og eðlilegt er þegar hann á í hlut, með góða og styrka þekkingu á bakgrunni landbúnaðarsamningana og sögunnar í þeim efnum.

Það eru tveir hlutir sem mig langar að árétta við þingmanninn í andsvari mínu við hann. Í fyrsta lagi varðandi þau svæði landsins sem byggja fyrst og fremst á sauðfjárrækt og ótta okkar margra að veikist vegna þessa samnings og ákvæða þar eru. Um það vil ég segja tvennt. Fyrir það fyrsta liggja núna nánast fyrir í drögum tillögur Byggðastofnunar um útfærslu á sérstökum stuðningi við þær byggðir þar sem verið er að feta sig út á nýjar brautir. Þá er verið, eins og hefur áður komið fram í umræðunni í dag, að horfa til sveita sem hafa þá fábreytni í atvinnulífi að þurfa að vera háð sauðfjárrækt eða eru meira háð sauðfjárrækt.

Í annan stað vil ég taka fram að í nefndarálitinu er tekið sérstaklega utan um hagsmuni nýliða í sauðfjárrækt sem hafa hafið búskap á undanförnum árum, fjórum fimm árum, og hafa núna setið í þeirri stöðu að vera með skekkt hlutfall margra ærgilda og fátt sauðfé. Tekið er sérstaklega utan um hagsmuni þeirra, t.d. með því að veita þeim viðbótarnýliðunarframlag sem við gerum raunverulega beina tillögu um. Þannig teljum við að við höfum komið til móts við unga fólkið sem er að brjótast í gegnum það stóra verkefni að hasla sér völl í sauðfjárrækt.