145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta er hvort tveggja út af fyrir sig alveg rétt svo langt sem það nær. Ég komst í það að kíkja á þessar tillögur Byggðastofnunar þegar ég hljóp í skarðið sem varamaður í atvinnuveganefnd og í sjálfu sér lýst mér ekki illa á þær. Ég held að þær séu ágætisnálgun að því vandasama verkefni sem það verður alltaf að afmarka einhvern hóp til að fá sérstakan stuðning af þessu tagi.

Það sama gildir um nýliðunina, það er gott, en í það fara nú takmarkaðir fjármunir eftir sem áður það ég best veit í þessum samningi. Og það undarlega er að svæðisstuðningurinn er lægri á næsta ári en á að vera árið þar á eftir af einhverjum ástæðum, aðeins 90 milljónir í staðinn fyrir 140. Ég spurði að því hvort það væri einhver möguleiki á að kippa því í liðinn þannig að þessi svæðisbundni stuðningur færi af stað af fullum krafti strax á næsta ári.

Það er því ýmislegt rétt um það að segja, það er ágætisviðleitni sýnd á mörgum svæðum, mörgum stöðum í þessu. Atvinnuveganefnd hefur gert sitt besta. Ég tek undir það. En það er reyndar fleira sem hefur á mig nokkur áhrif. Tíminn leið svo hratt í ræðustólnum, þessar skitnu 20 mínútur, að ég komst ekki í að nefna tollasamninginn. Það mun ég þó gera í umræðum um það mál. En ég hefði auðvitað gjarnan viljað komast í að segja nokkur orð um samhengi tollasamningsins og þessara breytinga í búvörusamningunum. Það verður að skoðast allt sem eitt heildarsamhengi, afleiðingarnar af tollasamningnum, búvörusamningurinn og ég tala nú ekki um ef bann Íslands við innflutningi á hráu kjöti er í uppnámi og fellur. Þá þurfum við nú heldur betur að fara að huga að ýmsu.