145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikilvægt að halda því til haga í þessari umræðu um þingmálið sem við ræðum að á því hangir tollasamningur Evrópusambandsins og þess vegna erum við að gera tíu ára ramma fyrir landbúnaðinn til að takast á við þær stórkostlegu breytingar sem honum fylgja.

Það var annar þáttur í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem ég vildi gera athugasemd við og vekja athygli á því sem segir í meirihlutaáliti atvinnuveganefndar um umhverfismál. Atvinnuveganefnd komst að því þegar hún fór að velta þeim þætti sérstaklega fyrir sér að við erum býsna fátæk af mælistikum og ráðgjöf um þann þátt er snýr að loftslagsmálum og hlutverki landbúnaðar í þeim efnum. Við getum jú heimfært ýmsar mælingar um losun lands, losun ákveðinna plantna og bindingu ákveðinna plantna, losun jórturdýra og hvernig við getum brugðist við á móti. En þær litlu mælingar sem við höfum gert á tiltölulega stuttum tíma sýna okkur að við þurfum að leggja í verulega mikla vinnu við að aðlaga þær mælingar að íslenskum veruleika. Ég vil því ekki taka undir með hv. þingmanni að við séum að skauta léttilega fram hjá umhverfismálunum en tek hins vegar undir með honum þegar hann segir að nú sé upplagt tækifæri til þess að gera landbúnaðinn meira gildandi í því stóra verkefni sem við ætlum að takast á við. Það er grunnur að því sem meiri hluti nefndarinnar leggur til með tölusettum tillögum sem við vísum til samráðsvettvangsins sem á að vinna á næstu árum.