145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt að menn hafa fært fram þau rök fyrir ramma til tíu ára að landbúnaðurinn hafi að þessu leyti meiri og lengri fyrirsjáanleika en venjulega vegna þess að hann þarf að takast á við miklar breytingar af öðrum ástæðum. Það er innleiðing tollasamningsins, það eru nýjar aðbúnarreglugerðir svo ég tala nú ekki um ef bannið á hrámetinu bættist við. Fyrir því eru alveg rök. En eitt er að semja um ramma um stuðninginn og annað að ganga frá því hvernig þeir fjármunir eru síðan nýttir og hvernig hlutunum er stýrt og hvernig þeir eru framkvæmdir. Mér sýnist að það sé það sem menn hafa meira og minna strandað með, a.m.k. að hluta til. Menn vilja áskilja sér rétt til að skoða á nýjan leik, 2019 eða hvenær það er, hvort sú stefna sem hér er mörkuð sé að öllu leyti sú rétta.

Varðandi loftslagsmálin. Jú, ég las þetta í nefndarálitinu. Það er ágætt að nefndin reyni aðeins að styrkja umfjöllun um þá þætti. Það breytir auðvitað ekki efnislegu inntaki samninganna. Ég hef gengið út frá því að Ísland hafi, þegar skrifað var undir í París, áttað sig á því að við munum þurfa að setja fjármuni í að ná markmiðum okkar. Það mun ekki gerast af sjálfu sér. Við erum svo sem þegar að gera það t.d. með skattaívilnunum í þágu grænnar umferðar o.s.frv. Eins hlýtur það að vera ef við ætlum að nota landbúnaðinn sem tæki í bindingu með endurheimt votlendis og skógrækt og öðru slíku að þá þarf til þess fjármuni. Ég var í barnaskap mínum að láta mér detta í hug að það mundi fæðast inn í þennan samning einn milljarður eða tveir sem yrðu eyrnamerktir sérstaklega aðgerðum Íslands í loftslagsmálum í gegnum samstarf ríkis og landbúnaðar. Þá hefði verið eitthvað til þess að skála fyrir.