145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um ýmislegt sem hann rekur, sérstaklega er varðar umhverfisþátt þessara samninga og hefði svo glaður viljað sjá fjármagni varið til þess að nýta landbúnaðinn til að vinna gegn loftslagsvandanum. Mér fannst hins vegar ýmislegt í máli hv. þingmanns bera vitni ákveðinnar þversagnar. Ég er sammála honum um mikilvægi þess að við höfum öflugar sveitir og fjölbreytt atvinnulíf í sveitum og möguleika og það hversu fjölbreytt landbúnaðarframleiðsla getur stutt við ferðaþjónustu, sem er í sjálfu sér að gerbreyta þessi missirin umgjörð íslensks landbúnaðar. En á sama tíma talar hv. þingmaður eins og framleiðslustýring sé sjálfstætt markmið og góð í sjálfu sér. Er ekki vandi landbúnaðarins sá að stuðningskerfið hvetur ekki nægjanlega til nýsköpunar, til vöruþróunar, til fjölbreytni í framleiðsluháttum? Á ekki markmiðið að vera að styðja við landbúnaðinn frekar til að styðja við fjölbreytta byggð og fjölbreytta atvinnuhætti, frekar en að stuðningurinn sé framleiðslutengdur eins og hann hefur verið frá 1991? Og í sjálfu sér þar með stutt mest við þá sem mest framleiða og minnst við þá sem eru á veikustu búunum í veikustu sveitunum? Hlýtur ekki lausnin fyrir okkur í landbúnaðinum að vera að losa um þetta allt saman, brjóta upp ofbeldiskerfið sem flokkur hv. þingmanns hefur varið með undanþágu Mjólkursamsölunnar frá samkeppnislögum og auka möguleika lítilla framleiðenda á að koma með fjölbreyttar afurðir beint frá býli og mæta þar með fjölbreyttari þörfum á nýjum tímum?