145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:45]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nefnilega sorglegt með þennan samning að í honum blasa við svo mörg glötuð tækifæri. Eitt er það sem hv. þingmaður rakti að ekki væri nýtt tækifærið til þess að fela bændum verkefni í endurheimt votlendis og öðrum þjóðþrifaverkefnum til að glíma við loftslagsvandann. Annað er að maður sér óþægilega lítil merki þess að stjórnvöld átti sig á þeirri grundvallarbreytingu sem er að verða í landbúnaðinum og getur orðið í landbúnaðinum með aukningu í ferðaþjónustu. Það er auðvitað bæði matvælaframleiðsla fyrir ferðamenn en líka, eins og hv. þingmaður nefndi, að möguleiki sé til að dreifa ferðamönnum betur með því að þróa betur staðbundnar vörur, staðbundin sérkenni og auka þar með á sérhæfingu í sveitum. Í sjálfu sér held ég að við stöndum frammi fyrir því að margt af hugmyndafræðinni í landbúnaðarkerfinu, allt frá mjólkursölulögunum 1934, er orðið úrelt. Þá var áherslan á ódýra mjólk, heilnæma mjólk og massaframleiðslu. Það mátti ekki hafa nein sérkenni, upprunasérkenni. Bannað var að selja Borgarnesskyr o.s.frv. Núna er krafa tímans, krafa ferðaþjónustunnar og krafa nýrra tíma uppruni, skýrari tenging milli framleiðslu og markaðar. Ég held að allt sem þurfi að gerast núna sé í sjálfu sér að sprengja upp þetta gamla úldna stofnanakerfi sem heldur aftur af þeirri framþróun sem við þurfum raunverulega á að halda fyrir hinar dreifðu byggðir.