145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:49]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Björt framtíð hefur lagt fram frávísunartillögu um að þessum búvörulögum verði vísað frá, ríkisstjórninni falið að framlengja gildandi búvörusamninga og hefja vinnuna upp á nýtt með samráði við fleiri aðila sem hafa verið út undan í þessu ferli. Þetta er í raun og veru prinsippafstaða um ferli, prinsippafstaða um það að svona mikilvæg vinna sem skiptir svona miklu máli fyrir stór svæði landsins, fyrir þúsundir og tugþúsundir bænda, fyrir neytendur í landinu og framleiðslu, að svona ákvarðanir séu ekki teknar í þröngum bakherbergjum þar sem aðilum á borð við neytendur, samkeppnisyfirvöld, Umhverfisstofnun, Landgræðslu o.s.frv. sé beinlínis haldið fyrir utan. Ég verð að taka undir með hv. formanni atvinnuveganefndar í stuttu viðtali í Morgunblaðinu í dag, það er mikilvægt að þetta samráð eigi sér stað. Í nefndaráliti og breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar er mælst til þess að auka einmitt þetta samráð, að stytta tímann úr tíu árum í þrjú ár og nýta þann tíma til að eiga þetta samráð. Við í Bjartri framtíð viljum meina að þar sé farið algjörlega öfugum megin að, þ.e. hér er lagt til við samþykkjum þennan samning sem hefur verið gerður án þessa samráðs, segjum í leiðinni, en það verður að vera samráð þannig að við skulum hafa það fram í tímann á næstu þremur árum á meðan þessi samningur gildir — og þá hvað? Getum við komist að einhverri annarri niðurstöðu?

Við í Bjartri framtíð teljum algjörlega óþarft að byrja á því að stíga það skref að fara í þennan búvörusamning með þeim breytingum sem í honum felast og hafa orðið til án samráðs við neytendur, við Landgræðslu og án tillits til umhverfisþátta, fullkomlega í trássi við og fram hjá öllum samkeppnissjónarmiðum, við teljum óþarft að það þurfi að gera þessa breytingu fyrst til að geta átt samráðið sem við hefðum átt að viðhafa áður en við gerðum breytinguna. Þetta er prinsippíel afstaða hjá okkur og hún lýsir í engu andúð okkar á íslenskum landbúnaði eða stuðningi við íslenska landbúnaðarframleiðslu, þvert á móti.

Ég, eins og við í Bjartri framtíð, er mikill stuðningsmaður íslenskra bænda, ég er mikill stuðningsmaður íslenskrar landbúnaðarframleiðslu, ég hef trú á því að íslensk landbúnaðarframleiðsla standi sig í samkeppni við innflutta framleiðslu. Hún hefur sýnt sig gera það, breytingarnar sem voru gerðar á ylræktinni þegar horfið var frá tollvernd og farið yfir í framleiðslutengdan stuðning sýndu fram á það að íslensk ylrækt er fullkomlega samkeppnishæf við innflutning og blómstrar. Það sem meira er, með þeirri breytingu ýttum við undir fjölbreytni í framleiðslu sem ekki veitir af í þessu litla landi og þeim litla landbúnaðarbransa sem við eigum.

Það segir sig sjálft að landbúnaður á norðurhjara í þessu litla landi getur ekki verið mjög fjölbreyttur. Landbúnaðarkerfið og sú stífa framleiðslustýring sem hefur verið á íslenskum landbúnaði áratugum saman hefur í raun stuðlað að einsleitni í íslenski landbúnaðarframleiðslu. Ekki það að íslensk mjólk sé ekki alveg frábærlega góð en það er samt dálítið merkilegt að það skuli bara vera til ein íslensk mjólk, ríkismjólkin. Það er ekkert í kerfinu, ekkert sem ýtir undir fjölbreytni, vöruþróun og nýsköpun í þessum bransa. Síðustu árin, einn, tvo áratugina, höfum við séð talsverða hreyfingu íslenskra bænda þar sem þeir hafa farið út í nýsköpun, sérhæfingu á sinni framleiðslu. Frægt er nú hvannalambið úr Dölunum sem er mjög skemmtileg nýbreytni, en auðvitað er þetta bara pínulítið agnarbrot af heildarframleiðslunni.

Við í Bjartri framtíð gagnrýnum það að ekki sé sérstaklega stutt betur við nýsköpun og að ekki sé nein sýn á að færa framleiðsluna meira út í lífræna og fullkomlega sjálfbæra ræktun sem er engin spurning að ætti auðvelt með samkeppni, jafnvel útflutning með hinu fræga Íslandsmerki á.

Við gagnrýnum það að í búvörusamningunum er ekki horft til umhverfissjónarmiða eins og kom ágætlega fram í ræðu Bjartar Ólafsdóttur, framsögumanns nefndarálits 3. minni hluta, Bjartrar framtíðar. Áður en samningarnir lágu fyrir var rætt um að menn mundu færa sig frá framleiðslutengingum og yfir í tengingar við fjölbreyttari framleiðslu en líka tengingar út frá byggðasjónarmiðum við byggð, svokallaða býlastyrki eða styrki sérstaklega fyrir býli og hreinlega styrki til þess að búa í sveitum, hvort sem menn eru þar með mikla framleiðslu eða stunda einhverja aðra starfsemi, eins og t.d. ferðamannaiðnað eða hvað. Því miður, þegar búvörusamningarnir koma síðan fram, er búið að draga þennan hluta niður í lítið sem ekki neitt og enn er styrkt við í raun og veru framleiðslutengingu stuðningsins.

Nú höfum við haft framleiðslustýringu og tengt stuðninginn við framleiðsluna áratugum saman og hver er niðurstaðan byggðalega séð? Við höfum séð það síðustu 20, 30 eða 40 árin að það hefur verið stórkostleg fækkun mjög víða í sveitum á Íslandi. Úr mörgum sveitum hefur fólk því sem næst alveg flosnað upp og því miður sjáum við ekkert hér sem ýtir undir það að færa þá þróun til baka. Þvert á móti sjáum við þessi árin stórkostlega samþjöppun í íslenskum landbúnaði, sérstaklega í mjólkuriðnaði þar sem við sjáum færri býli en fjölgun risabýla sem eru það stór að þau eru löngu hætt að vera einhvers konar fjölskyldueiningar, enda fjármagnaðar og reknar af stórfyrirtækjum sem eru í raun og veru komin í landbúnaðariðnað. Hvers skyldi vera ástæðan fyrir því að Kaupfélag Skagfirðinga er orðið svona risastór eigandi hlutfallslega í Mjólkursamsölunni? Það er auðvitað vegna þess að Kaupfélagið hefur verið að kaupa sig inn í íslenskan landbúnað og rekur hann eins og hvern annan bisness. Það er kannski eðlilegt viðskiptalega séð og út frá framleiðslunni en það hefur hins vegar ekkert með byggðastuðning að gera. Ég vil meina að það sé mikilvægt að við aftengjum byggðastefnuhugsunina við landbúnaðarstuðning og framleiðslukerfi okkar — það á svo sem alveg eins við um sjávarútveginn — og séum með fjölbreyttan byggðastuðning sem er stuðningur við byggð í sveitum eða byggðum landsins sem er ekki bundinn einhverri ákveðinni framleiðsluaðferð, einhverri ákveðinni afurð eða ákveðinni tækni, heldur býður íbúum sveitanna og í þeim byggðum upp á að velja sjálfir hvað þeir fást við og velja sjálfir hvaða iðnað, þjónustu, framleiðslu eða hvað það er sem þeir kjósa að starfa við og hafa trú á.

Í þessum samningum viðhöldum við í raun og veru mjög þröngri stýringu á það hvað fólk í sveitum landsins má gera. Það er miður, það hefði verið gott tækifæri að ganga lengra í að opna þessar dyr. Það er jákvætt að hér er að einhverju leyti verið að opna á fjölbreytni en það er bara allt of lítið.

Neytendavinkillinn er mikilvægur vegna þess að stuðningurinn er ekki bara byggðastuðningur heldur er hann stuðningur við íslenskan landbúnað og íslenskt matvælaöryggi. Ég vil taka það fram, þó að mér finnist það næstum óþarft en miðað við umræðuna í dag er mikilvægt að taka það fram, að mér þykir íslensk matvælaframleiðsla mikilvæg, mér þykir stuðningur við hana mikilvægur, mér finnst matvælaöryggi Íslendinga vera mikilvægt mál. En matvælaöryggi Íslendinga er ekki bara falið í því að við framleiðum einhver ókjör af sykruðu jógúrti eða að við framleiðum ókjör af svínaskönkum eða bara kjúklingum heldur hlýtur það að geta falist í fjölbreyttari framleiðslu. Hér er verið að opna t.d. á að geitarækt komi betur inn. Hvað um býflugnarækt? Einhvern tímann var hugmynd um krókódílarækt í Þingeyjarsveitum. Ég spyr mig hvort það geti mögulega verið framtíð í því.

Hinn endi matvælaframleiðslunnar er dreifing og sala og neysla á þeirri framleiðslu. Þar kemur að neytendum á Íslandi sem hafa vegna framleiðslustýringar í gegnum áratugina, með mjög stífri tollvernd og takmörkun á innflutningi á matvælum sem gætu mögulega verið í samkeppni við íslenska framleiðslu, í raun setið eftir og hafa dálítið þurft að láta sér verða að góðu það sem í boði er.

Ég vil ítreka að ég hef svo mikla trú á íslenskri matvælaframleiðslu, t.d. íslenska lambinu, að ég hef engar áhyggjur af því að með eðlilegum stuðningi sem er tengdur framleiðslunni muni íslensk landbúnaðarframleiðsla ekki spjara sig fullkomlega vel í samkeppni við sambærilegar vörur, alveg eins og íslensk framleiðsla ylræktarinnar, íslenskar gúrkur og tómatar, hefur gert og sannað sig.

Hér er gert ráð fyrir, í raun og veru til þess að vega upp á móti nýgerðum tollasamningum við Evrópusambandið sem gera ráð fyrir auknum innflutningi, m.a. á ostum, mótvægisaðgerðum þar sem tollar á þessum vörum eru hækkaðir til að vernda íslenska ostaframleiðslu. Það er verið að handtína út einhverjar tegundir af mögulega innfluttum ostum sem ekki eru framleiddar hér á landi og þær mega koma í gegn. Það má vel segja að þetta komi sér örugglega ágætlega fyrir íslenska ostaframleiðendur. Þetta mun að vísu ekki hvetja þá til nýbreytni eða nýsköpunar þar sem þá er ljóst hvar þeir njóta verndar. Þetta mun ekki hvetja þá til að keppa við erlenda osta í gæðum, ferskleika, nýjum brögðum eða hverju sem er sem hefði einmitt verið jákvætt, bæði fyrir framleiðendurna en ekki síður neytendurna.

Það að binda íslenskt landbúnaðarkerfi í tíu ár, þó svo að með breytingartillögu meiri hluta hv. atvinnuveganefndar sé verið að stytta það mögulega í þrjú ár, að binda framleiðsluna áfram við það að taka ekki tillit til hagsmuna neytenda, að hafa talsmenn neytenda ekki við borðið, er algjörlega óásættanlegt. Það er eiginlega óskiljanlegt hvernig fólki dettur það í hug. Þetta er dálítið eins og að skipuleggja heilbrigðiskerfið bara með samtali ráðuneytis við lækna en hlusta aldrei á sjúklinga eða hjúkrunarfræðinga. Þetta er stórfurðuleg aðferðafræði og því miður verður hún eiginlega bara súrrealískari við tilmæli meiri hluta hv. nefndar um að taka samráðið eftir á.

Ég get ekki lokið máli mínu án þess að koma aðeins inn á samkeppnisvinkilinn. Það er óskiljanlegt og fullkomlega óásættanlegt að heil atvinnugrein, hversu mikilvæg sem hún kann að vera í byggðalegu, sögulegu, matvælaöryggislegu tilliti o.s.frv., sé tekin út fyrir sviga þegar kemur að samkeppni. Það að ekki sé horft til samkeppnissjónarmiða er svo skaðlegt þegar kemur að hagsmunum neytenda, en ekki síður að hagsmunum bænda sjálfra vegna þess að það hefur sýnt sig að hver sú atvinnugrein sem ekki nýtur samkeppni, sem ekki þarf að ástunda nýsköpun, þarf ekki að slást aðeins um nýjar hugmyndir, meiri gæði o.s.frv., á ekki annað fyrir sér en að staðna og falla frá. Það að útiloka eðlileg samkeppnislög sem gilda um allt annað á þessu landi og í íslensku hagkerfi er fullkomlega óásættanlegt.

Á það hefur verið bent að hér sé verið að setja í lög og í raun hvetja til verðsamráðs og samráðs og athafna sem beinlínis eru refsiverðar og varða allt að sex ára fangelsi í öllum öðrum brönsum og það er fullkomlega óskiljanlegt, herra forseti, og full ástæða til að mótmæla þeim enda skorti á samkeppnisvinkli á umhverfi og framþróun þessarar mikilvægu atvinnugreinar.

Bent hefur verið á það í andsvörum fyrr í kvöld og hægt er að lesa það á milli línanna að sé maður ekki fullkomlega sáttur við þessa búvörusamninga og umhverfi landbúnaðarins eins og það er sé maður á móti landbúnaðinum og á móti því að landbúnaðurinn hljóti stuðning. Ég mótmæli því í lok máls míns. Ég er þvert á móti stuðningsmaður þess að við styðjum við íslenskan landbúnað en að við gerum það ekki með belti og axlaböndum og gjörð, við gerum það ekki bæði með tollvernd og með því að undanskilja landbúnaðinn samkeppnissjónarmiðum, með því að styðja framleiðsluna og horfa ekki til áhrifa framleiðslunnar á umhverfissjónarmiðið.

Íslenskar kvikmyndir keppa við niðurgreiddar kvikmyndir erlendis frá í kvikmyndahúsum á Íslandi. Þær pluma sig ágætlega vegna þess hreinlega að (Forseti hringir.) þær eru góðar. Þær njóta stuðnings eins og hinar innfluttu myndir en út af samkeppninni við erlendar myndir verða þær betri.