145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög skelegga ræðu þar sem hann sýndi mjög skilning sinn á högum og kjörum bænda en jafnframt hélt mjög skýrt fram þeirri stefnu okkar í Samfylkingunni að við viljum ekki sjá þær undanþágur frá samkeppnislögum sem enn er að finna í þessum lögum.

Hv. þingmaður lagði á það áherslu að mjög mikilvægt væri að hendur nýrra þinga yrðu ekki bundnar inn í framtíðina til tíu ára. Þá langar mig til þess að spyrja hann um tvennt:

Í fyrsta lagi. Telur hann einboðið eins og um hnúta er búið í breytingartillögum meiri hlutans að það sé algjörlega í gadda slegið að næsta þing fái málið til afgreiðslu?

Í öðru lagi. Af því hv. þingmaður hefur verið virkur í umræðu um stjórnarskrá og þekkir hana mörgum öðrum betur, telur hann að það standist stjórnarskrána að samþykkja lög af því tagi sem hér er verið að ræða sem kunna hugsanlega að binda hendur þingsins, þess vegna til nánast þriggja kjörtímabila? Er algjörlega ljóst að það sé heimilt samkvæmt stjórnarskránni?