145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:32]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög góð spurning og sú sem ég hef miklar áhyggjur af. Við vitum að ef búið er að gera bindandi búvörusamning er ekkert auðveldlega úr honum komist nema með samkomulagi beggja aðila. Við reyndum það eftir hrun þegar gerðir voru breytingar á gildandi búvörusamningi en svigrúm okkar þá í ríkisstjórn var takmarkað vegna þess að það var gildur samningur fyrir hendi.

Á hinn kantinn má auðvitað segja að það er stjórnarskráin sem ljær Alþingi algjört sjálfdæmi um það að samþykkja fjárveitingar frá einu ári til annars. Samningar allsherjarvaldsins að því leyti eru bundnir fjárveitingum Alþingis á hverjum tíma.

Vegna þess að hv. þingmaður spyr hvort eitthvað sé í gadda slegið þarna þá er það nefnilega akkúrat ekki. Það er ekkert í gadda slegið. Meiri hlutinn slær í og úr. Hann segir að nú séu fyrstu þrjú ár samninganna staðfest og mörkuð framtíðarsýn til tíu ára. Hann leggur samt upp aðferðafræði fyrir endurskoðun samninganna, segir á bls. 3 í nefndaráliti, og leggur til að endurskoðunin byggist á aðferðafræði sem feli í sér víðtæka samstillingu um landbúnaðinn, á atkvæðagreiðslu um endurskoðaða samninga meðal bænda og afgreiðslu Alþingis á lagabreytingum sem sú endurskoðun kann að kalla á.

Mér finnst þetta býsna óljóst. Er þá Alþingi í seldri stöðu? Verða samningarnir alltaf að lágmarki að hljóða upp á það sem kveðið er á um í frumvarpinu sem við eigum að fara að afgreiða og á að gilda til 2026 samkvæmt orðanna hljóðan? Eða getur Alþingi breytt því sem eftir er frá 2019–2026? Það finnst mér að þeir sem koma hér upp, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem eru náttúrlega í sinni úlfakreppu að reyna að losa sig úr þessu haftabixi sem þeir eru búnir að flækja sig í, skuldi okkur skýringar á því. Er það þá nákvæmlega þannig að menn komist (Forseti hringir.) út úr þessu, að samningarnir séu ekki skuldbindandi eftir 2019?