145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason vísaði til þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Eitt af því sem er merkilegt í þessari umræðu hér í dag er að þingmenn Sjálfstæðisflokksins sitja og þruma þegjandi í sætum sínum úti í sal og virðast ekki hafa kjark til þess að koma og segja hver þeirra afstaða er. (Gripið fram í: Enginn framsóknarmaður hefur talað heldur.) Enginn framsóknarmaður talar heldur, segja hv. þingmenn. Ég hef svo sem tekið eftir því. Ég skil vel að þeir vilji ekki taka mikið til máls. Þeir eru þó sammála þessu bixi og eiga það með húð og hári.

Ég velti því fyrir mér hvernig er með frjálslynda þingmenn eins og hv. þm. Vilhjálm Bjarnason. Ætlar hann ekki að taka þátt í þessari umræðu? Fáir hafa með jafn skeleggum hætti og hann talað um gildi samkeppninnar og gagnrýnt höft og helsi af þeim toga sem er að finna í þessu frumvarpi og breytingartillögu sem við erum að ræða. Mig undrar ef hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason ætlar ekki að segja neitt af því að hann er nú viðstaddur umræðuna.

Varðandi spurninguna um stjórnarskrána er það ekki úr lausu lofti gripið. Ég ber virðingu fyrir þeim mönnum sem hafa stúderað stjórnarskrána. Ég ber virðingu fyrir þeim mönnum sem hafa verið í forustu stjórnmálaflokka, jafnvel lengi, jafnvel þótt það sé annarra stjórnmálaflokka en þeirra sem ég tilheyri. Það vill svo til að fyrrverandi forsætisráðherra og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ritað mjög djúpristar greinar þar sem hann sýnir fram á að það séu sterk rök sem hníga að því að með samþykkt samnings af þessu tagi förum við yfir þau mörk sem stjórnarskráin heimilar. Það er þess vegna sem ég vildi fá fram þessa afstöðu hjá hv. þingmanni sem virðist, eins og Þorsteinn Pálsson, telja mikinn vafa leika á því að þarna göngum við í takt (Forseti hringir.) við stjórnarskrána. Ef það er einhver sem á að njóta (Forseti hringir.) vafans í þessu máli er það stjórnarskráin.