145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason, sem yfirleitt er skeleggastur þingmanna í þessum sal og fer aldrei dult með skoðanir sínar, lauk sínu máli með því að segja að hann hefði komið viðhorfum sínum á framfæri. Ég leyfi mér að vera ósammála því. Það birtust engin viðhorf í máli hv. þingmanns nema tvenn; í fyrsta lagi að hann teldi að kerfið væri að fótum fram komið og í öðru lagi að hann teldi að hér væri verið að framlengja búvörusamningana.

Það sem ég ætla þó að gera að meginefni í fyrirspurn minni til hv. þingmanns er að hann segir að hann líti svo á að þessi samningur sé til þriggja ára. Ætlar þingmaðurinn að byggja afstöðu sína til verulegra útgjalda til kerfis, sem hann segir sjálfur að sé komið að hruni, á einhvers konar óskhyggju sinni? Hann veit það jafn vel og ég að það komu samningsréttarfræðingar fyrir viðeigandi þingnefndir sem sögðu að á meðan það væri ekki sérstaklega tekið fram af þinginu, meiri hlutanum, og sérstök bókun gerð af hálfu bæði Bændasamtakanna og fjármálaráðuneytisins um að sá skilningur væri fyrir hendi og sameiginlegur að það yrði skoðað aftur og endurskoðað eftir þrjú ár, þá gæti þessi samningur þess vegna siglt til tíu ára.

Ég er þeirrar skoðunar að í þessu felist m.a. að Alþingi geti ekki afnumið undanþágur frá samkeppnislögum fyrir mjólkuriðnaðinn um alllanga hríð, hugsanlega tíu ár. Telur hv. þingmaður að það samrýmist hugsunum okkar um framsal valds Alþingis?

Sömuleiðis vegna þess að hv. þingmaður er áhugamaður um viðskiptasamninga tel ég að þessi samningur, verði hann samþykktur með þeim hætti sem hv. þingmaður ætlar bersýnilega að leggja mat sitt við, þá sé svigrúm Alþingis til þess að gera nýja viðskiptasamninga um lækkun tolla á búvörum verulega takmarkað á þessum sama tíma.

Ég spyr hv. þingmann: Telur hann að þetta valdaframsal til Bændasamtakanna frá þinginu samrýmist stjórnarskrá? Telur hann að hér sé fetað meðalhóf (Forseti hringir.) um framsal valds þingsins?