145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bændur eru ekki ofsælir af kjörum sínum. Ef þeir hefðu fengið að koma að samráði um þessa samninga og ef menn væru á annað borð sáttir við það að setja þessar miklu fjárhæðir til landbúnaðarins þá hefðu þeir viljað nýta það með allt öðrum hætti. Það hefði verið hægt að nýta þessa fjármuni miklu betur fyrir landbúnaðinn, miklu betur fyrir hinar gisnu byggðir, miklu betur fyrir Ísland. Enginn sýndi jafn vel fram á það og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hér fyrr í dag.

En aftur að afstöðu hv. þingmanns. Hann hrasar um sín eigin rök. Seinni ræða hans er ekki í samræmi við meginefnin í fyrri ræðunni. Í fyrri ræðunni sagðist hann líta svo á að þessi samningur væri einungis til þriggja ára. Í seinni ræðunni var hann búinn að smætta það niður í að segja að það sé vilyrði fyrir því að hugsanlega verði þetta bara þrjú ár. Staðreyndin er auðvitað sú, eins og hv. þingmaður hefur greind og gáfur til þess að skilja, að Bændasamtökin og eftir atvikum stjórnmálamenn þurfa ekkert að gera annað en þvælast fyrir þessu samráði sem hann segir að sé gefið vilyrði fyrir. Þar með er ljóst að samningurinn fetar áfram í tíu ár. Þar með er líka klárt að frjálslyndir sjálfstæðismenn hafa þá tekið þátt í því að framselja vald Alþingis til Bændasamtakanna um það hvort Alþingi geti gert nýja viðskiptasamninga sem tengjast innflutningi á landbúnaðarvörum og sömuleiðis um fjárveitingar, sömuleiðis um það hvort hægt sé yfir höfuð af hálfu Alþingis að breyta þessum samningum í tíu ár.

Ég er þeirrar skoðunar að þetta sé á verulega gráu svæði gagnvart stjórnarskránni. Það er partur af því að ég get ekki stutt þetta mál. En mér detta flestar, jafnvel allar, lýs steindauðar úr höfði við það að hlusta á hv. þingmann, talsmann hins frjálslynda vængs Sjálfstæðisflokksins, ætla að beygja sig undir þennan (Forseti hringir.) skilning, vera ekki einu sinni samkvæmur sjálfum sér. Nú bíð ég eftir því, frú forseti, að heyra (Forseti hringir.) hv. þm. Sigríði Andersen sýna hvort hún líka hrasi um sína eigin (Forseti hringir.) rökfimi eins og (Forseti hringir.) restin af frjálslynda vængnum.