145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:24]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Örlítil reynslusaga af liðnu sumri. Ég fékk marga erlenda gesti til mín í sumar og fór með þeim á veitingahús. Eitt skiptið gengum við á milli þriggja, ég mundi segja höfuðveitingahúsa í Reykjavík án þess að þar væri hægt að finna rétt sem flokkaðist undir íslenskt lambakjöt. Það var með öðrum orðum ekki hægt að labba hér um, jú, hægt var að fara á kebabstaði auðvitað og svoleiðis staði, þeir standa sig vel, arabarnir standa sig vel í því að koma íslensku lambakjöti á framfæri hérna í Mandi og hjá Ali Baba. En ef menn fara á ýmsa aðra, svo ég nefni bara veitingastaðinn Snaps, þá var ekki hægt að fá slíkt þar í sumar. Ég gæti nefnt fleiri. En það var nú ekki það sem ég ætlaði að nefna.

Málið er að framsýnir bændur gera sér alveg grein fyrir að þeir hafa siðferðilegar skyldur til að haga verkum sínum þannig að það samræmist þeim markmiðum sem bæði þeir og við höfum sett okkur sem þjóð varðandi loftslagsmálin og umhverfisvernd. Þeir voru hins vegar ekkert spurðir ráða. Það sem er að koma fram svo skýrt í þessari umræðu er að þessi samningur er búinn til í einhverjum reykfylltum bakherbergjum þar sem almennir bændur, neytendur, hvað þá stjórnmálamenn utan framkvæmdarvaldsins, fengu ekki að koma að. Það er hinn stóri galli við þennan samning. Það hefur t.d. komið hér fram að bændur sjálfir, samtök sauðfjárbænda urðu sjálf að fara í það að reikna út hverjar yrðu afleiðingar þessa samnings fyrir sauðfjárræktina í landinu. Niðurstaðan var skelfileg. Í ljós kemur að þeir sem við ættum helst að vera að styðja, ef stuðningur á að vera á annað borð, koma hvað verst út úr þessu, þ.e. bændurnir þar sem gisnar byggðir eru, í Dölunum, í Norðurþingi og á Ströndum. Mér finnst þetta vera alveg svakaleg niðurstaða og get ekki annað en sagt: Það var illa af stað (Forseti hringir.) farið í þessa samninga. Menn hefðu betur haft meira samráð, ekki síst við Alþingi Íslendinga en (Forseti hringir.) auðvitað við bændurna sjálfa.