145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sigríður Andersen talaði tæpitungulaust að flestu leyti í ræðu sinni. Hún sagði algjörlega skýrt, öndvert við það sem t.d. hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason sagði hér fyrr í dag, að það væri hennar skilningur að þessi samningur væri til tíu ára. Hv. þingmaður spurði: Ef hann á að vera til þriggja ára hvers vegna segja menn það þá ekki? Hún er sem sagt þeirra skoðunar að samningurinn eigi að vera til þriggja ára. Hún fær sennilega tækifæri til þess á morgun að sýna það í verki í atkvæðagreiðslu.

Ég spyr hv. þingmann: Mun hún ekki í ljósi þessarar ótvíræðu yfirlýsingar sinnar styðja þá tillögu til breytinga sem hér liggur fyrir frá þingmönnum Samfylkingarinnar um að samningurinn verði til þriggja ára?

Í öðru lagi langaði mig til þess að spyrja hv. þingmann í ljósi þeirrar niðursallandi gagnrýni sem hún hefur sett fram á frumvarpið, sem er hnúturinn um búvörusamninginn: Sér hún tilefni til þess að gefa þinginu upp hvaða afstöðu hún hyggst taka? Getur hv. þingmaður annað en greitt atkvæði gegn þessum samningi eftir að hafa hér í mörgum atriðum sett fram mjög vel rökstudda gagnrýni á flest meginatriðin í samningnum?

Í þriðja lagi þá er ég henni algjörlega sammála um að það er náttúrlega alveg út í hött að ætla sér að fara að hækka með afturvirkum hætti hvort heldur er gengis- eða neysluverðsvísitölutryggt viðmiðunarverð á þessum sérstöku ostum. Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann af því að hún kvartar undan því að menn hafi ekki reynt að rýna í afleiðingar þessa samnings og fleira: Veit hún hvað ostarnir munu að þessu samþykktu hækka mikið í prósentum talið? (Forseti hringir.) Veit hún það?